Espergærde. Hó! Verðlaunagetraun.

Sunnudagsmorgun og múrarinn Steffen nostar við múrverk sitt inni á baðherbergi. Höll framkvæmdanna stendur undir nafni. Steffen var mættur hingað klukkan hálfátta á sunnudagsmorgni. Hann er einn af þeim mönnum sem enn heldur í 10 ára gamla hártísku, ljósar strípur á efsta hluta hármakkans. Hann minnir mig svo mikið á hinn týpíska knattspyrnumann í annarri deild ensku knattspyrnunnar. En hann er ástríðufullur og samviskusamur múrari og ég kann vel við hann, hann Steffen. Mér fannst ég verða að heiðra þennan góða mann með því að kaupa eitthvað bakkelsi úti í bakaríi, svo hann fengi sætt í munninn með kaffinu.

Hingað bárust nokkur e-bréf í gær til að benda á eitt og annað í sambandi við dagbókarfærslu gærdagsins. Í fyrsta lagi voru nokkrir óánægðir með kápuval mitt, sérstaklega að láta kápu Vigdísar Grímsdóttur, Elsku drauma mín, fljóta með. Ekkert haggar mér, he! Í þriðja sæti í kápuvali mínu er Elsku drauma mín. Punktur.

Auk þess var mér bent á að Ingibjörg Eyþórsdóttir, hönnuður kápu bókarinnar Mín káta angist, er eiginkona Guðmundar Andra. Ég hafði þetta satt að segja á tilfinningunni en ég hafði séð fyrir mér unga, laglega konu með gleraugu, bil milli framtannanna og mitt í hópi kórkvenna. Ég fæ stundum merkilegar hugmyndir. Í þriðja lagi var ég beðinn að halda aðra bókmenntagetraun. Sú fyrsta var ansi vinsæl svo ég verð hér með við áskoruninni. Verðlaunin eru, sem fyrr, 12 bjórar að eigin vali, á bar að eigin vali.

Verðlaunaspurningin er: Hvaða bók, mig langar að segja framúrskarandi bók, hefst með málsgreininni:

„Leigubílstjórinn virtist fara hjá sér þegar hann sá að enginn beið til að bjóða mig velkominn – ekki einu sinni afgreiðslumaðurinn innan við móttökuborðið. Hann gekk um mannlausan forsalinn, hugsanlega í þeirri von að koma auga á starfsmann falinn á bak við eitthvert blóm eða hægindastól. Að lokum setti hann töskurnar mínar frá sér við lyftudyrnar, muldraði afsökunarbeiðni og kvaddi.“

Til að gera lífið léttara fyrir þátttakendur bæti ég við að bókin var þýdd á íslensku árið 1996. Bókin vakti ekki þá athygli sem hún verðskuldar. Síðast þegar ég lagði fram getraun af þessu tagi átti áhugasamt bókmenntafólk í vandræðum með að finna netfang mitt. Hér er það: snar@hrferdinand.dk

p.s.  Bókin sem spurt er um er ekki á myndinni að ofan.

p.p.s Þegar ég renndi augunum yfir bókakilina í bókahillunum mínum rakst ég á bók sem kom út árið 2008. Mér til skemmtunar sá ég að þegar árið 2008, árið sem ég hannaði kápuna fyrir neonklúbbinn, lét ég mennina í kápuskreytingunni heilsast kumpánlega með „hó“. Það var ég ánægður með. Ekki þarf mikið til að gleðja mitt einfalda hjarta.

ho

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.