Í gær lagði ég verðlaunagetraun hér inn á Kaktusinn. Skemmst er frá því að segja að metþátttaka var í getrauninni. Ég held því ekki fram að netþjónar heimsins hafi ofhitnað en það lá við að minn litli heili færi á yfirsnúning við að halda utan um hin ólíku svör. Ég var eiginlega orðin úrkula vonar um að rétt svar bærist. Klukkan sextán mínútur yfir tólf í nótt, þegar ég var farinn að íhuga að hátta mig, barst enn eitt bréf. Í þetta sinn frá Sigurjóni B. Sigurðssyni. Fáir Íslendingar eru jafnvel lesnir í bókmenntum heimsins og drengurinn með röntgengleraugun og því kom mér ekki á óvart að hann hefði hið rétta svar.
„Er það ekki Óhuggandi sem hefst svo?
Sannarlega er hún vanmetin en ég man
að mér þótti hún djarft verk og dásamlega
erfið aflestrar…“
… segir meðal annars í bréfi Sjóns. Og hann hitti naglann á höfuðið. Hið rétta svar er Óhuggandi eftir Kazuo Ishiguro.
ps. Hlustaði á fínt viðtal á RÚV við minn gamla samstarfsmann á Bjarti, Guðrúnu Vilmundardóttur. Gaman að heyra hvað hún er góð í hlutverki forleggjarans.