Espergærde. PS

Í morgun gekk ég til vinnu, enn hef ég ekki mannað mig upp í að skipta um slöngu á hjólinu mínu. Gönguleiðin er ekki löng. Það tekur mig um það bil 15 mínútur rölta frá Søbækvej (heimili mínu) til lestarstöðvarinnar (skrifstofan). Yfirleitt mæti ég ekki mörgum á snemmbúnum ferðum mínum eftir kyrrlátum götum þessa litla bæjar. Í morgun mætti ég þó Lars, nágranna mínum, sem var úti að ganga með hundinn sinn. Ég gleymdi að heilsa honum, svo niðursokkinn var ég í eigin hugsanir, en vaknaði þegar ég heyrði ítrekaðar óskir um góðan dag. Hann var hissa á að ég heilsaði honum ekki, það sá ég, og ég skammaðist mín fyrir að vera svona utanveltu.

Það er margt sem hvílir á mér þessa dagana, sumt er svo óinteressant að ég ætla ekki að íþyngja minni fínu dagbók með slíkum smámunum. Annað vegur þyngra og þarf lengri meðgöngutíma til að rata hingað inn í Kaktusinn. En það sem ég vildi segja: í höfðinu á mér söng Blonde Redhead á meðan ég ferðaðist eftir fáförnum götum Espergærde. (Til fróðleiks fyrir fróðleiksfúsa eru meðlimir hljómsveitarinnar ítalskir tvíburar (karlmenn sem spila á trommur og gítar) og japönsk söngkona.) Á göngunni hafði ég hlakkaði svo til að geta sest inn á dimma skrifstofuna, hella upp á kaffi og halla mér til baka á meðan tónarnir frá Misery is a Butterfly flæddu yfir mig áður en ég byrjaði að vinna.

Tónlist. Tónlist.

Hann: Ég trúi á Guð, algerlega, en ég fer ekki fram á að skilja. Guð er þar sem músikin er. Ég held að hin stóru tónskáld miðli sínum skilningi á Guði. Ég er ekki að rugla einhverja vitleysu. Í mínum huga er Bach …

Hún: En einu sinni varstu fullur efa.

Hann: Ekki um Bach.

Hún: Nei, en þú hafðir efasemdir um Guð.

Hann: Öll sú della er horfin. Hún er horfin burt. Ég get setið hérna úti… umvafinn himni og jörð … og fundið … já …

dagbók

Skildu eftir svar