Espergærde. Enginn vill leika

Mér er eiginlega enn hálfbrugðið. Í gær vorum við Daf einir heima. Númi var úti að spila tennis við vin sinn og Sus hafði farið til  Louisiana að hlusta á fyrirlestur um Trump með nokkrum af vinkonum sínum. Þegar klukkan er níu er kominn háttatími fyrir Daf. Í gær ákvað ég að fara upp með honum, leggja mig upp í rúm og fara að lesa. Svo óheppilega vildi til að iPadinn minn var bensínlaus og bókin sem ég les er á iPadinum. Ég setti iPadinn því í samband og lagði mig við hlið hans og beið eftir að það kviknaði líf í lesvélinni. Búmm ég sofnaði á sekúndubroti. Það var fyrst í morgun klukkan hálfsex sem ég vaknaði! Ég var meira en lítið ruglaður þegar ég vaknaði.

Í morgun var það svo jógamorgun. Ég er orðinn pínulítið betri en í upphafi jógaferilsins, ekki alveg eins mikill álfur og ég var. Og nú erum við orðnir fjórir karlmenn í hópnum með sjö konum. Mér finnst ég ekki beint vera elegant eða gera æfingarnar sérlega vel en ég hef það ágætt þegar ég er búinn í jóga.

Klukkan er næstum hálftólf og ég er rétt sestur á skrifstofuna. Gekk hingað út eins og síðustu morgna þar sem enn er sprungið afturdekk á hjólinu mínu. Á leiðinni er lítill garður sem er opinn öllum, þar eru tvö mörk svo þarna eru kjöraðstæður fyrir börn að spila fótbolta. Ég sé aldrei neinn spila fótbolta í þessum fína garði. Þegar ég var krakki vantaði alltaf völl til að spila á, sérstaklega grasvöll. Hefði þessi grasvöllur verið í hverfinu mínu, hefði alltaf einhver verið að spila fótbolta, og ég hefði alltaf verið með!

Í gær furðaði ég mig á því að ég fékk bara einn mail til mín prívat og persónulega allan gærdaginn. Enginn nennti að skrifa mér. Stundum er ég bara meira sólginn í fréttir og kontakt en aðra daga. Í gær þyrsti mig eftir að einhver segði mér eitthvað skemmtilegt.  Sandra var að vísu svo góð að senda mér nokkar myndir, það finnst mér gaman.

ps. Hó ég gleymdi einu: Paul Auster er 70 ára í dag!

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.