Espergærde. Lifi Víetnam

Ég er ekki einn af þeim sem sífellt er að segja frá draumum sínum, þ.e. svefndraumum, draumum næturinnar. Yfirleitt er það ávísun á leiðindi. En ég get ekki annað en minnst á að í nótt missti ég þrjár tennur. Mér er alltaf illa við tennur í draumum, í mínum huga er það feigðarmerki. Ég verð bæði órólegur og leiður.

Síðustu daga hafa aðrar hugsanir sótt á mig. Ég er búinn að gleyma svo mörgu bæði frá því að ég var barn og ungur maður. Mér finnst stór hluti ævi minnar hulinn, mig vantar lykla að gömlum minningum. Myndir, bréf, minnismiða. Stundum koma þær þó óvænt, minningarnar, siglandi í gegnum svarta hugarþokuna, kljúfa sortann og gnæfa yfir mér eins risavaxið stefni á skipi.

Ég var sennilega sjö ára og leiddi ég mömmu upp Háteigsveginn á leið til kirkju. Á horni Háteigsvegar og Vatnsholts var búið að skrifa í steypuna á gangstéttinni: „Lifi Víetnam“. Ég var bæði nógu lítill og nógu vitlaus til að vita ekki hvað Víetnam var og spurði því mömmu hvað þetta ætti að þýða: „Lifi Víetnam?“ Mamma hafði engan áhuga á pólitík og nennti alls ekki að setja sig inn í alþjóðastjórnmál. Hennar áhugasvið lá annars staðar. Svarið var því allóljóst. Í hvert sinn sem við gengum þessa leið upp Háteigisveginn, og það var hvern sunnudag, velti ég skilaboðunum í steypunni fyrir mér. Þau ollu mér sífelldum heilabrotum. Einn sunnudaginn gekk ég með pabba og spurði hann.

„Hvað þýðir þetta: lifi Víetnam?“ sagði ég og benti niður á gangstéttina.
„Þetta er bara eitthvað sem einhverjir kommúnistar hafa skrifað,“ svaraði pabbi. (Á þessum árum var hann fylgismaður Sjálfstæðisflokksins. Það átti eftir að breytast með árunum.)
„Hvað meina þeir… kommúnistarnir?“
„Þetta eru bara skemmdarverk, maður á ekki að eyðileggja gangstéttina með því að skrifa í blauta steypu.“
Ég komst aldrei nær sannleikanum um slagorðið. „Lifi Víetnam.“ En mér var lengi á eftir hálfilla við Víetnam og skemmdarvargana sem hylltu landið.

Í síðustu viku var ég í sambandi við umboðsmann rithöfundarins James Patterson. Patterson er ekki sérlega vel þekktur, hvorki á Íslandi né í  Danmörku. Hann er þó, nú um stundir, sá höfundur í heiminum sem selur flestar bækur. Hann skrifar átta bækur á ári, glæpasögur, og allar lenda þær á toppi metsölulista víða um heim, Bandaríkjunum, Englandi, Ítalíu, Spáni… En það er enginn sem vil gefa hann út í Danmörku. Margir hafa reynt að selja bækur hans hér í landi en án árangurs. Það er satt að segja ótrúlegt. Patterson er frægastur fyrir tvær bækur sem báðar voru kvikmyndaðar og voru gífurlega vinsælar: Along Came a Spider og Cat and Mouse. En ég  var sem sagt tregur þegar umboðsmaðurinn hafði samband við mig og vildi fá mig til að gefa út bækur Pattersons og ég sagði honum að það væri fullreynt að selja bækur Pattersons í Danmörku. Það væri því miður enginn áhugi. Umboðsmaðurinn lét ekki sannfærast og útlistaði í löngu máli vinsældir höfundarins og að hann væri misskilinn. Patterson var góður, hann var klár og ástríðufullur höfundur. Hann fékk mig ekki til að skifta um skoðun og ég sagði enn og aftur að ég hefði ekki áhuga. Umbinn veiddi þá fram nýtt trick sem ég hef ekki séð fyrr.
„Snæbjörn, hvað segir þú um að ég bjóði þér að kynnast Jim (James Patterson er augljóslega kallaður Jim af vinum sínum). Ég skal veita þér aðgang, án allra skuldbindinga að námskeiði sem Jim heldur fyrir nokkra nemendur. Námskeiðið heitir “Hvernig maður skrifar metsölubók.“ Námskeiðið tekur nokkarar vikur og er on-line þannig að þú getur leyst verkefnin á þínum eigin hraða og af og til færðu úthlutaðan viðtalstíma hjá Jim þar sem þið getið rætt saman. Á þennan hátt kynnist þú höfundinum og um leið færðu innsýn í hvernig hann hugsar og starfar.“

Ég tók boði umboðsmannsins og er nú innritaður í námskeið hjá James Patterson.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.