Lengi hef ég bæði undrað mig á og kannski líka dáðst að ungum manni sem gengur hér um götur bæjarins snemma morgna með hund í bandi. En það er hvorki hundurinn né maðurinn sjálfur sem vekja þessar tilfinningar hjá mér heldur er það kaffibollinn hans sem hann ber með sér hvern morgun á göngu sinni. Í kulda og trekki, í myrkri, í sól og í regni sötrar hann á kaffinu sínu um leið og hann gengur sína leið með hundinn eða fylgir börnunum sínum í skólann. Það var eiginlega fyrst í gær þegar ég gekk áleiðis til lestarstöðvarinnar, og enn og aftur sá þennan unga mann álengdar með kaffibollann sinn, að ég fór hugsa um kaffið hans og að mér sótti þessi líka kafifiþorsti að ég greikkaði sporið til að koma sem fyrst í minn eigin kaffibolla á skrifstofunni.
Aftur í morgun, nývaknaður, á leið út í póstkassa í blindamyrkri til að ná í morgunblaðið, kom maðurinn með kaffibollann upp í huga mér. Ég sneri við áður en ég náði út á stétt og hellti kaffi í bolla til að taka með mér út í póstkassa. Svo stóð ég úti við endann á göngustígnum að húsinu mínu, horfði niður götuna sem er upplýst af litlu götuljósi neðar við hornið og sötraði kaffið mitt áður en ég opnaði póstkassann og tók blaðið.
„Kæri Snæbjörn.
Það gleður mig að þú sért með á námskeiðinu mínu um hvernig maður skrifar metsölubók. Ég lofa að það mun gagnast þér, ég kann alls konar trikks og leiðir sem eiga eftir að hjálpa þér. En fyrst skaltu gera upp hug þinn. Að feta rithöfundarveginn er ekki bein gleðibraut án hindrana. Sjálfur hef ég gengið í gegnum ósigra, hafnanir og vonbrigði. Fyrsta bókin sem ég skrifaði fékk neitun frá 31 útgefenda og þótt ég segi sjálfur frá var bókin ekki afleit. Og annað: þótt þú fáir bókina þína útgefna er það hvorki ávísun á auð né frægð. Ég las viðtal fyrir nokkrum dögum við ungan mann sem hafði skrifað þrjár bækur og fengið þær prentaðar hjá virðulegu forlagi í Englandi. Ein þeirra var meira að segja tilnefnd til hinna frægu Bookerverðlauna. Áður en hann hóf feril sinn sem rithöfundur vann hann á skrifstofu sveitarfélagsins sem hann býr í. Í síðustu viku fékk hann aftur sömu vinnu hjá sveitafélaginu. Sjö árum og þremur bókum seinna. Hann hafði ekki lengur efni á að vera rithöfundur, skuldir hans hafa vaxið og áhyggjur af afkomu fjölskyldunnar ýttu honum aftur til baka í skrifstofustólinn sinn.
Ég skrifa þér ekki til að letja þig, alls ekki, ég vil bara benda þér á að forsendurnar; þú skalt hafa brennandi áhuga á að skrifa og þú skalt ekki búast við frægð og frama. Ef ástríðan fyrir skrifum er ekki ofar öllu er engin ástæða til að eyða tíma þínum í námskeiðið…“
Svona hófst langt og vinsamlegt bréf hins fræga höfundar. Ég gat ekki annað en brosað.