Espergærde. Samlokur fyrir bankamenn

Hó! Dagur funda. Hingað er á leið til okkar her manna. Flokkur bankamanna. Sumir koma langt að, alla leið frá Jótlandi, aðrir koma frá höfuðstaðnum, Kaupmannahöfn. Ég veit ekki afhverju þeir koma svona margir, en þeir vilja okkur vel. Við kaupum samlokur fyrir þá þegar þeir koma, ítalskar samlokur frá Il Divino, frá veitingastaðnum hér í Espergærde. Á meðan þeir tyggja samlokurnar og hrósa þeim (geri ég ráð fyrir), ætla ég að halda uppi samræðum um það sem efst er á baugi í heimi bankanna.

Ég hef undirbúið mig. Í gær bárust nefnilega fréttir um að Donald Trump, sem er forseti Bandaríkjanna, hefði laumast (í skjóli fárviðrisins í kringum ferðabann múslima til Bandaríkjanna) til að breyta lögum um bankastarfsemi. Nú þurfa bandarískir bankar ekki að eiga digra varasjóði til að tryggja að bankakrísan frá 2008 endurtaki sig ekki. Trump hefur nefnilega í hyggju að dæla út peningum frá bönkunum svo hann geti byggt nýja vegi, nýjar brýr og jafnvel nýja lestarteina án þess að ríkissjóður, sem er skuldum vafinn, þurfi að leggja fram einn eyri. Evrópskir bankar, líka danskir, horfa öfundaraugum til Bandaríkjanna og hinna frjálsu banka. Þeir vilja líka vera með í að byggja. Þetta kveikir í bankamönnunum á meðan þeir naga sig í gegnum samlokurnar frá Il Divino og ég ætla að reyna að hlusta áhugasamur.

Á laugardaginn fljúgum við til Íslands. Við stoppum ekki lengi, verðum fram á þriðjudag. Svo fljúgum við til New York. Þar eru líka fundir. Ekki með hinum frjálsu bankamönnum heldur með umboðsmönnum rithöfunda. Ég hafði líka hugsað mér að hafa samband við Ólaf Jóhann og spila innanhúsfótbolta með honum. Það er kalt í New York um þessar mundir svo fótboltinn er innandyra.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.