Espergærde. Fyrsta eða annað farrými

Snjór í Danmörku. Yfir gangstéttinni úti við póstkassann minn lá glitrandi hvítur, óspjallaður snjór. Ég var hálfvankaður þegar ég sótti blaðið eldsnemma í morgun. Ég stóð við póstkassann, horfði niður morgunrökkvaða götuna og sönglaði með sjálfum mér gamlan sálm. Ég hljómaði eins og gömul kona. Ég er svefnvana eftir vökunótt yfir hljóðbókagreiningu sem ég þarf að skila nú fyrir hádegi. Skemmtilegt hvað ég verð melankólskur þegar ég er svefnlaus. Þá fer ég að söngla sálma. Sálmasöngur við póstkassa.

Heyrði í gær að Auður A. Ólafsdóttir hefði unnið hin íslensku bókmenntaverðlaun. Það eru mikil og góð tíðindi fyrir hið litla forlag Benedikt (og auðvitað Auði). Mér finnst allt ganga Benedikt í haginn. Það er meðbyr frá fyrsta degi. Slík sigling vekur auðvitað athygli og ekki kæmi mér á óvart að fleiri höfundar banki upp á og spyrji hvort þeir megi fá far með hinum hraðfleyga fararskjóta. Hingað til útlandsins berast fréttir um kurr úr virðulegum höfundabörkum sem vilja líka fljúga hátt og hratt og eru bæði óánægðir með farrýmið sem þeim er úthlutað og ferðahraðann.

 

dagbók

Skildu eftir svar