Espergærde. Engladauðinn

Kominn í flughöfn. Eftir um það klukkustund fljúgum við til Íslands. Ég var rétt kominn inn á flugvallarveitingastað þegar rakst ég á mann sem ég kannast við. Hann býr í næsta bæ. Humlebæk. Þessi óvæntu stefnumót koma nokkru róti á huga minn þar sem ég hef hugsað til þessa manns í nokkra daga. Hann hefur bara læðst inn í hugsanir mínar. Hann er nefnilega týpa sem mér líkar vel við, held ég. Ég hef bara hitt hann einu sinni í garði þar sem nokkrar fjölskyldur höfðu safnast saman til að leika. Boltaleiki og hlaup.

„Nei, hæ,“ er allt í einu sagt fyrir aftan mig.
Ég sneri mér við og sé þennan ágæta mann og mér varð eiginlega orða vant því mér fannst svo skemmtileg tilviljun að hitta manninn.
„Hó, hvaða ferðalag er á þér?“
„Ég er á leið á skíði. Skíði í Austurríki.“
„Það er ekki ónýtt,“ segi ég.
Síðan fær hann að vita um mínar ferðaáætlanir og svo kveðjumst við.
Ég sá strax eftir að hafa kvatt manninn svona hratt, ég hefði átt að koma á einhvers konar sambandi við manninn. Ég kann svo vel við menn sem eru jafn óhræddir og hann. Hann er búinn að kaupa hús á Mallorca og stofna gallerí þar. Hann er búinn að stofna símafyrirtæki sem byggir á að styrkja menningar- og íþróttalífið í Espergærde og nágrenni. Hann er búinn að setja á fót auglýsingastofu. Ég kann bara svo vel við svona action og eiginlega vildi ég þekkja manninn.

Nú sitjum við á sama samlokustað, Jói og ávaxtasafinn, við tveir. Ég og Steen eins og hann heitir. Hér er starfsfólkið ofurhresst og allir sem koma inn fá high five. Ég hugsa með mér, þegar næsti gestur gengur inn og sér til undrunar fær high five-kveðjur, deyr engill. „High five,“ hrópar hressi þjónnin og ég heyri lágt dunk einhvers staðar bak við mig. Dáinn engill, hugsa ég.

Við Steen sitjum á sama stað, konan hans er búin að koma til mín og kynna sig. Ég vissi ekki hver hún var. En hún vissi hver ég var og heilsaði hressilega. En ég vona að Steen komi og segi: „Eigum við ekki að hittast og setja eitthvað skemmtilegt í gang?“

„High five.“
Dunk.

Ég svipast um, ég sá ekki hvar hann settist, hér er margt fólk. Nú kem ég auga á konu hans. Hún bítur varlega í brauð og ég sé baksvip athafnamannsins. Ég ákveð að sitja lengur og bíða þar til þau hjónin standi upp. Þá ætla ég líka að standa á fætur og verða samferða þeim til dyra og reyna að koma einhverju í gang. Hó!

Næst þegar ég læt augun renna yfir veitingastaðinn eru þau horfin, ég veit ekki hvernig þau komust óséð framhjá mér.

dagbók

Skildu eftir svar