Ég er á Íslandi. Ég er í Reykjavík. Ég held mig að mestu innan póstnúmers 101. Hér heilsar fólk mér eins og það þekki mig. Ég veit næstum aldrei hver það er sem heilsar mér en ég heilsa á móti. Í morgun var ég í Vesturbæjarlaug, þar sat ég í þægilega volgum potti og hlustaði þögull á samræður fólks í pottinum. Allt í einu snýr sér eldri kona að mér og segir við mig: „Manstu ekki eftir mér? Við vorum einu sinni nágrannar. Ég bjó í Álftamýrinni í raðhúsinu fyrir ofan raðhúsið þitt.“
Ég mundi ekki eftir henni fyrr en hún hafði útskýrt fyrir mér hver hún var. En hún var góðviljuð, gömul kona sem vissi meira um mig en ég vissi um hana. Í miðju samtali okkar grípur yngri kona orðið og spyr:
„Fyrirgefðu forvitnina,“ segir hún og lítur aðeins niður fyrir sig. Ég horfi á hana og bíð þess að framhald setningarnar komi. Hvað er þessi ókunna kona forvitin að vita?
Eftir stutta þögn, sem konan virtist nota til að orða spurningu sína, orða það sem hún var forvitin um, segir hún:
„Ertu ennþá með Bjart, eða …“ hún þagnaði aftur og horfði spyrjandi á mig og ég skyldi að ekki yrði framhald á spurnarsetningunni. Ég svaraði og svo spjölluðum við stundarkorn saman og alltaf á þann hátt eins og ég ætti að vita hver þessi unga kona var. Ég hafði bara ekki hugmynd um við hvern ég var að tala og fannst of vandræðalegt að koma upp um hvað ég var ómannglöggur.
Að loknu spjalli okkar ungu konunnar, gekk ég upp úr hinum ylvolga potti og ákvað að fara í sturtu. Sundferð dagsins var lokið. Hinum meginn við annan heitan pott, sem var sennilega enn heitari en sá sem ég kom upp úr, stóð ljóshærður maður á sundskýlu og veifaði í átt til mín. Ég vissi ekki hver maðurinn var en ákvað að nú skyldi ég ekki koma upp um mig og mína lélegu hæfileika til að þekkja fólk. Ég vinkaði innilega til baka, brosti mínu breiðasta brosi og kinkaði ákaft kolli. Staldraði meira segja við til að gefa manninum möguleika á að koma til mín og spjalla ef hann hefði áhuga á því. En ég sá að maðurinn horfði furðulostinn á mig og þá skyldi ég að hann var að veifa til konu, sennilega kærustu sinni, sem var niður í pottinum fyrir framan mig. Kveðjan var sem sagt ekki ætluð mér svo ég hélt bara áfram för minni í átt til sturtunnar.
Gærdagurinn var vel heppnaður. Palli og Nanna höfðu boðið okkur í það sem kallað er bröns í hádeginu í gær. Og þar var aldeilis hlaðið borð með allskonar góðgæti. Maður fann hvað þau lögðu sig fram um að láta okkur líða vel og hvað við vorum velkomin. Eftir dýrðlega máltíð tók Nanna sig til og skipulagði listaleiðangur um Reykjavík með viðkomu á Listasafni Reykjavíkur (þar fengum við góða leiðsögn listamannsins Ilms Stefánsdóttur), við fórum á Listasafn Íslands og við fórum upp á Ljósmyndasafn Reykjavíkur þar sem búið er að hengja upp frábærlega skemmtilega sýningu á ljósmyndum. En best af öllu var að sjá hús sem ég hafði ekki hugmynd um að væri til. Hannesarholt, hús Hannesar Hafstein, sem nú er í eigu gamallar skólasystur okkar Palla. Það var aldeilis gaman að koma þar inn. Þar er tónlistarsalur, kaffhús og veitingasala. Og þar er aldeilis fín menningardagskrá.
Í gærkvöldi sáu svo Sölvi og Ingibjörg um kvölddagskránna. Aldeilis glimrandi fínt kvöld með gæðabjór í vali bjórmeistarans Sölv.