New York. Hvíta kaffihúsið

Ég sé eftir að hafa ekki gefið út W.G. Sebald þegar ég var forleggjari á Íslandi. Hugmyndin um að þýða bækur höfundarins var þó kynnt fyrir mér og ég hugsaði mig um… en dró lappirnar. Ég tók mig aldrei til og las Sebald en bækur hans hafa leitað á mig í 15 ár, eða meira. Í gær, á köldum en sólríkum degi í New York, gekk ég framhjá lítilli bókabúð og það var eitthvað við gluggaútstillinguna sem minnti mig á Sebald. Innandyra var ungur maður með síðan hártopp að raða bókum í hillur. Ég fylgist með honum í gegnum búðargluggann kjaga með háan bókastafla í fanginu, leggja hann á afgreiðsluborðið, byrja svo að taka bækur úr bókaturninum og raða upp í hillur. Auðvitað hefði ég átt að reikna út að búðin var enn ekki opin –klukkan var ekki orðin níu – en ég gekk samt að búðardyrunum til þess eins að sannreyna að hurðin var harðlæst. Ungi maðurinn leit upp, ýtti með einum fingri hártoppnum eins og gardínu frá augunum. Hann virti mig fyrir sér. Það var eitthvað sem gerðist í huga hans á meðan hann hallaði undir flatt. Augnabliki síðar leit hann undan og hélt áfram störfum sínum. Ekki fengi ég keypt bók eftir Sebald í þessari tilraun. Ég arkaði því áfram á stefnumót sem ég átti við amerískan forleggjara á kaffihúsi niður í Soho.

Kaffihúsið var gegnhvítt, allt var hvítt – borð, veggir og stólar – og þjónarnir voru hvítklæddir svo þeir runnu saman við innréttinguna. Vinkona mín, forleggjarinn, sat við borð í svartköflóttri kápu og veifaði glaðlega til mín þegar ég kom inn úr dyrunum. Ég var dökkklæddur svo ég sást greinilega með hvíta veggina í bakgrunninum. Samtöl okkar frá þessum morgni verða ekki tíunduð hér en eitt bar þó á góma sem kannski er gott að geyma í dagbók. Auður A. Ólafsdóttir er einn af höfundum ameríska forleggjarans og hún er að undirbúa útgáfu á nýjustu bók Auðar en hefur samt aldrei gefið út það sem mér þykir besta bók Auðar, Afleggjarinn. Mér fannst innilega að hún ætti að prófa að gefa Afleggjarann út í Bandaríkjunum.

Eftir fundinn sigldi ég út í borgina og hafði eiginlega bara eina hugsun í kollinum, ég var einóður. Nú skyldi ég finna Sebaldbók hjá bóksala. Eftir langa göngu fann ég Strand-bókabúðina sem var aldeilis troðfull af fólki. Ég komst varla áfram inni í búðinni fyrir mannmergðinni en Sebald keypti ég og nú liggur bókin hér á borðinu við hliðina á mér. Ég er búinn að opna skrudduna. Skoðar myndir og lesa formála James Wood, gagnrýnandans miskunnarlausa frá New York Times.

Var það ekki Óskar Árni sem reyndi svo að fá mig til að gefa út Sebald á íslensku? Það var margt sem hann reyndi að fá mig til að setja í bók. Um daginn þegar ég var í Reykjavík kíkti ég inn í bókabúð Máls og menningar og gluggaði í bækur, meðal annars bók Óskars Árna, Dagbók frá Kúbu. Þessa bók hefði hann örugglega viljað að ég gæfi út og ég hefði sennilega dregið lappirnar.

Ég hef alveg gleymt að skrá hér á Kaktus að ég kláraði bók Geirs Gulliksen, Historie om et ægteskab í  Reykjavík. Bókin hafði mikil áhrif á mig, ég var sleginn og eiginlega hálfleiður. Þetta er vel skrifuð bók og kveikir margar vangaveltur um nýja stöðu karla og nýja stöðu kvenna í nútíma hjónabandi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.