Espergærde. Ljóðabréf

Póstkassinn minn stendur örlítið skakkur á lóðamörkum hússins míns, við enda steinlagðs stígs sem er lagður í boga frá útidyrunum. Póstkassinn sem ég setti upp fyrir nokkrum árum – án hallamáls – blasir við þegar maður kemur gangandi upp Søbækvej. Í gærkvöldi kom ég seint heim frá vinnu. Það var meira en rökkur þegar ég kom gangandi, það var aldymmt, en ljósin frá húsunum lýstu upp silfurlita póstkassann minn . Ekki grunaði mig hvað beið mín þegar ég opnaði kassann í gærkvöldi; Jótlandspósturinn frá því um morguninn – ég hafði ekki tíma til að lesa dagblöðin – og umslag merkt með þessari sérkennilegu áritun:

Ljóðabréf þetta berist:
Snæbjarnar Arngrímssyni
Søbækvej 12
3060 Espergærde
Danmark

 

img_9040
Eins og annað sem Ragnar Helgi býr til prentunar er ljóðabréfið bæði fallegt og girnilegt

Ég varð himinlifandi. Akkúrat það sem ég hafði óskað mér. Fallegt af Ragnari Helga – ég geri ráð fyrir að hann hafi staðið fyrir að póstleggja bréfið – að hugsa til mín í utlöndum. Þegar ég lagðist upp í rúm í gær las ég ljóðabréfið spjaldanna á milli. Mér fannst margt ansi fínt og annað síðra eins og gengur og gerist í svona safni ljóða. Eftir fyrsta lestur þóttu mér ljóð Braga Ólafssonar (Þrjú erindi), Dags Hjartarsonar (Ástarsorg gröfumannsins), Sjóns (Mannfræði) og þýðing Sigurðar Pálssonar á ljóði Ilya Kaminsky (Musica Humana) skara fram úr.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.