Espergærde. Vinnulag metsöluhöfunda.

Mér tókst að koma því í framkvæmd að skrifa bréf til forsvarsmanns Ljóðabréfs og þakka fyrir hina fínu sendingu sem mér barst um daginn. Ég hafði ætlað mér að skrifa þakkarbréf í nokkra daga án þess að koma mér að verki. Mikið er annars þessi konseptútgáfa Ragnars Helga upplífgandi. Ég verð að minnsta kosti glaður að fylgast með útgáfunni á 1005, Ljóðabéfi og öðrum litlum útgáfuuppákomum á hans vegum.

Í dag er langur dagur með James Patterson og námskeiði hans um að skrifa metsölubók. Patterson himself skrifaði mér bréf á miðvikudaginn og spurði hvort ég væri til í smásession á sunnudaginn. Og nú er sunnudagur og ég hef tekið frá tíma fyrir herra Patterson. Hann vaknar ekki fyrr en eftir hádegi á dönskum tíma en morguninn ætla ég að nota til að undirbúa mig fyrir verkefni dagsins. Ég hef í raun og veru ekki tíma til þessa en hef einsett mér að taka frá hálfan dag til að kynnast vinnulagi metsöluhöfunda. Umboðsmaður Patterson skrifaði líka til mín í síðustu viku til að heyra hvernig gengi og hvað mér findist um aðferðir höfundarins og í lok bréfsins kom hið sanna erindi umboðsmannsins. „Ég vona að þú hafir séð hvaða mann Patterson hefur að geyma og hversu afburðar metsöluhöfundur hann er. Bækur hans kalla á útgefanda í Danmörku.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.