Espergærde. Kvöldmatur með rithöfundi

Í kvöld á ég stefnumót með Geir Gulliksen höfundi bókarinnar, Historie om et ægteskab. Geir er í heimsókn í Danmörku og þar sem dótturforlag okkar C&K gefur út bókina er það kurteisi að mæta í kvöldverðarboð honum til heiðurs. Og það er mér ánægja að verja kvöldstund með þessum umtalaða höfundi.

Ég las bók hans fyrir nokkru og olli sagan mér töluverðu hugarangri, eða vakti mig að minnsta kosti til umhugsunar um samlíf hjóna nú til dags. Skáldsagan hans Geirs á víst að hafa vakið heiftarlegar deilur bæði í Noregi og Svíþjóð en þær erjur hafa meira eða minna farið fram hjá mér. Satt að segja verð ég að viðurkenna að ég var hálfpirraður á undirlægjuhætti karlmannsins í sögunni (en sagan byggir á sambandi Geirs við fyrrum konu sína). Það er eins og samviskubit nagi Geir fyrir syndir forfeðra okkar, fyrir það hvernig konur  í gegnum tíðina hafa mátt þola að spila aðra fiðlu í hjónabandinu. Þessar syndir virðist Geir þurfa að bæta fyrir með því að taka að sér hlutverk hins kúgaða í hjónabandi. Ekkert í fari karlsins má  minna hið minnsta á karlmennsku – sem er ofureðlilegur hluti af því að vera karlmaður. Hann getur ekki einu sinni tekið að sér að skera kalkún við jólaborðið, það lætur hann konu sína gera, því það er í hans huga of dæmigert atferli karlmanns.

Ég tek eftir þessu sama í sumum nútíma samböndum sem ég þekki til. Einhvern veginn hvílir kúgunarsaga kvenna svo á hinum meðvitaða nútíma karlmanni að ósjálfrátt setur hann sjálfan sig á hné. Hinn náttúrulegi munur á karli og konu er ekki lengur hluti af eðlilegu samlífi. Enginn þarf að knékrjúpa, gott samlíf byggir á jafnræði.

Það er ekki þar með sagt að þetta verði samtalsefni okkar Geirs í kvöld. Geir er ekki bara rithöfundur hann er líka forleggjari hjá norska forlaginu Oktober og hefur haft mikla þýðingu á þróun nýrra aðferða í samstarfi rithöfunda og forleggjara. Ætli ég hlífi ekki skáldinu með umræður um kynjahlutverk.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.