Espergærde. Víbrar í loftinu.

Hann reyndist hinn ágætasti maður, rithöfundurinn Geir Gulliksen. Í gærkvöldi fórum við Sus inn til höfuðstaðarins, hálftíma bílferð, til að borða með Charlottu hjá C&K forlaginu, rithöfundinum Geir Gulliksen, höfundi bókarinnar umtöluðu Historie om et ægteskab. Auk þess bættist í hópinn Klaus Rothstein, útvarpsmaðurinn og stjórnandi bókmenntaþáttar DR1 (Rás 1). Klaus er Eiríkur Guðmundsson Danmerkur. En er það rétt að það sé orðið modern hjá menntafólki að opinbera mikilvægi sinnar kristnu trúar? Þessu héldu þau fram í gær, kvöldgestirnir. Að þeirra sögn stíga fram menningarritstjórar, blaðamenn, rithöfundar og annað  fólk í framlínu dansks menningarlífs til að játa að innblástur þeirra sæki þau í hina kristna trú. Mörg nöfn voru nefnd. Ekki vissi ég þetta og átti svolítið erfitt með að trúa þessu. Ég var vantrúaður. En trúleysi, eða trúvilla eins og einhverjir vilja nefna afstöðu sína, er sem sagt out.

Nú sit ég á skrifstofunni, ég hef enn ekki dregið gardínurnar upp, ég er eins og inni í helli. Músikin er á fullu og ég reyni að halda mér rólegum við dagbókarskriftir á meðan veröldin í kringum mig hringsnýst og krefst athygli. Það eru mikil fundurahöld í dag, því miður. Fundir, eða skipulögð samtöl,  eiga ekki sérlega vel við mig. En ég skynja að margt liggur  í loftinu, það er von á tíðindum. Ég spái að þetta verði viðburðarrík vika, án þess að ég hafi neitt fyrir mér í þeim efnum. Það eru bara sterkir víbrar í loftinu og hjartað í mér slær.

ps. Einhver hafði borið Kaktusskrif mín í gær um bók Geirs í höfundinn. Hann sagði kíminn að hann hefði fengið dagbókarfærslu gærdagsins þýdda fyrir sig. Ekki skyldi ég hvernig þessi fátæklegu skrif, sem enginn sér, gátu borist til norsks höfundar. En ekki gat ég annað en glott yfir því, en segi ekki meir, þar sem ég finn fyrir augum höfundarins yfir axlirnar á mér. En ég neitaði köku í eftirrétt með orðunum: „Ég borða ekki kökur, ég er karlmaður.“ Mér til skemmtunar og til að hressa kvöldsamkomuna.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.