Klukkan er 7:10. Ég horfi út um gluggann á skrifstofunni og út á brautarpallinn á meðan ég bíð eftir fyrsta kaffibollanum mínum. Ég heyri hrothljóðin í sjóðandi vatninu í kaffivélinni. Það er skaplaust veður. Algert logn. Grá ský hanga yfir og ekki bærist hár á höfði þeirra mörgu sem standa úti og bíða eftir lestinni á leið til vinnu inn í Kaupmannahöfn. Flestir dunda sér við símana sína, höfuðin grúfa yfir lítinn ljósbjarma í lófunum. Nokkrir spjalla saman.
Ég tek upp kíkinn minn sem stendur í gluggasyllunni og beini honum að andliti markmannsins í liðinu mínu sem stendur afsíðis á brautarpallinum andspænis mér í síða svarta frakkanum sínum. Hann er með bakpoka á bakinu. Hann stendur hreyfingarlaus og horfir hugsandi út í loftið með hendur í vösum. Hvað ætli hann sé að hugsa, hann Ulrik markmaður? Hlakkar hann til að mæta til vinnu?