Espergærde. Vindill á garðbekknum

Þriðji mars, afmælisdagur pabba. Í morgun þegar ég áttaði mig á hvaða dagur var datt mér fyrst í hug vindlarnir sem ég gaf pabba alltaf í afmælisgjöf, Fauna-vindlar. Stundum fékk hann bláa dós með Capstan píputóbaki. Í kvöld þegar sólin er sest og kyrrð er komin yfir ætla ég að setjast út á garðbekkinn minn og reykja vindil.

Eftir að pabbi dó og líka mamma eru þau ofar í huga mér en meðan þau lifðu. Ég hugsa oftar til þeirra, á hverjum degi koma myndir af þeim í huga mér. Síðdegi í Álftamýrinni. Pabbi og mamma sitja hvor á sínum djúpa hægindastól. Litla hringborðið á milli þeirra. Mamma hafði hellt upp á kaffi.

Í morgun, á leið til vinnu, rölti ég aukatúr um bæinn. Bæði vegna þess að það hrjáir mig eitthvað óyndi sem ég hef enga sérsstaka skýringu á og ég fékk líka þá flugu í höfuðið að finna garðbekki í bænum. Eða bara bekki. Ég fann fjóra. Hér eru nokkrar myndir.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.