Espergærde. Mr. Ryder og dularfulla veskishvarfið.

Mánudagsmorgunn. Ég er ekki enn búinn að gera við reiðhjólið mitt og því geng ég  til vinnu í stað þess að hjóla. Nú er orðið albjart þótt ég leggi snemma af stað til vinnu. Í morgun var ég kominn út á undan öllum og enginn var á gangi í bænum, bara ég með rúnstykki sem ég hafði nælt mér í úr brauðskúffunni til að naga á göngunni. Ég íhugaði að feta sömu leið og ég hafði farið á föstudaginn þegar ég týndi veskinu mínu, en hugsaði með mér að ef ég hafði gloprað veskinu á föstudaginn hlyti einhver að hafa fundið það yfir helgina. Ég gekk því bara mína vanalegu gönguleið án þess að hitta sálu.

Ég var búinn að drekka þrjá kaffibolla á forlagsskrifstofunni, horfa út í loftið með fæturnar uppi á skammel og íhuga næstu skref í lífi mínu þegar ég setti á mig rögg, ræsti tölvuna og byrjaði að taka til á skrifborðinu. Og hvað kom í ljós? Veskið mitt, úttroðið af peningum frá öllum heimshornum, lá hérna á skrifborðinu undir bókasamningi sem ég undirritaði á föstudaginn. (Það dularfulla er að ég borgaði tennisskó á föstudagseftirmiðdegi á leið heim frá vinnu með korti sem liggur í veskinu. Ég hef ekki verið á skrifstofunni eftir að ég var í Intersport á föstudaginn.)

Þetta minnir mig á mr. Ryder, hina ógleymanlegu höfuðpersónu bókar Kazuo Ishiguro Óhuggandi. Við mr. Ryder eigum margt sameiginlegt.

Dæmigert fyrir mr. Ryder: Hann er tónlistarmaður og hann á að halda konsert í borg. Hann er búinn að gleyma hvað borgin heitir en er þó mættur til borgarinnar. Hann leggur af stað fótgangandi frá hóteli sínu til konserthússins þar sem tónleikarnir eru haldnir. Hann telur sig nokkurnveginn vita hvar tónleikastaðurinn er. Einhvern veginn tekst honum að villast af leið og lendir inn í hálfgerðu völundarhúsi gatna sem endar allt í einu í gríðarháum vegg sem engin leið er að komast yfir. Hmmm?! Þetta gæti svo vel verið ég; endalaust villtur af leið og enda í öngstræti. En – og  þetta er mikilvægt – þetta er allt í lagi, svona er líf okkar. Hvorki ég né mr. Ryder förum í  panik, við undrumst  yfir þróun mála. Svo snúum við bara við og allt fer á besta veg. En það er töluverð ringulreið í lífi okkar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.