Ég er enn og aftur vansvefta. Ég vann fram á nótt í gær og átti erfitt með að sofa fyrir hugsunum sem keyrðu í hringi í höfðinu á mér. Ég fékk nóg af að liggja í rúminu þegar klukkan var orðin 06:00 og læddist niður á meðan aðrir sváfu. Stríðskötturinn Gattuso tók vel á móti mér. Hann var svangur og spurði auðmjúklega hvort hann mætti fá harðfisk. Það mátti hann.
Á göngu minni til vinnu í morgun dreymdi mig um vorið. Það er ískalt úti og einhvern veginn er skyrtan mín svo þunn að mér verður skítkalt þótt ég gangi greitt. Himinninn er grár, göturnar auðar og þó að ég hneppi jakkanum að mér smýgur kaldur gusturinn inn í merg og bein.
Í dag þarf ég að skila skýrslu og því var vinnudagurinn langur í gær. Meðal annars tók ég saman hvaða bækur við höfum á dagskrá árið 2017 og mér til undrunar kom í ljós að um það bil 30 bækur eru á útgáfulistanum. Það voru fleiri bækur en ég hafði haldið.