Ég gaf mér góðan tíma að koma mér til vinnu í morgun. Ég hugsaði með mér að nú verð ég að ná mér niður, púlsinn er alltof hár og alltof margt sem keyrir viðstöðulaust í hringi í hausnum á mér. Í töskunni minni lá bréf sem ég hafði ætlað með í póstinn í gær og mér fannst tilvalið að taka smákrók til að setja bréfið í póstkassan niður á Gylfesvej fyrst mér hafði enn ekki tekist að póstleggja það. Það er vor í lofti, birtan er önnur og á vegi mínum tók ég eftir að vorblómin eru farin að springa út. Ég gekk framhjá skólanum þar sem börnin voru úti að leika í frímínútum og flýtti mér yfir skólalóðina og vonaðist eftir að fótboltinn sem nokkrir strákar spörkuðu á milli sín lenti við fætur mínar svo ég gæti fengið að sparka einu sinni til boltans. Mér varð næstum að ósk minni, að vísu fékk ég ekki að sparka; hár bolti sveif í loftinu í átt til mín og ég hoppaði upp og skallaði boltann fimlega niður til eins af drengjanna. Góð sending. Yo.
Mér finnst hljóðið af fótboltaleik í skólagarði eins og smyrsl á sálina. Hola, djúpa hljóðið þegar sparkað er í fótboltann er engu líkt. Ég fæ sting í hjartað mér finnst svo gaman að fótbolta. Og svo hrópin í þeim sem vilja fá boltann, „hingað!“ Maður getur ekki annað en verið glaður.
Póstkassinn stendur út við strætóstoppustöð. Ég sé sjaldan nokkurn mann bíða eftir strætó í þessu biðskýli en ég sé oft hundafólk troða kúkapokum í ruslafötuna sem stendur við hlið skýlisins. Í morgun mætti ég ungri konu sem ég sé oft á göngu með hundinn sinn standa yfir litlum hvítum púðluhundi sem var áhugasamur um lyktina af ljósastaur. Ég er haldinn þeim fordómum að þeir sem eru úti að ganga með hund seint um morgun séu óhamingjusamir einstaklingar; atvinnulausir og bakveikir. Þessi ákveðna kona vekur alltaf þessa skrýtnu hugsun. Ég hef einu sinni talað við konuna (í einhverri foreldraveislu í skólanum) og það staðfesti því miður það sem ég hafði haldið; hún var óhamingjusöm, atvinnulaus og bakveik.
Ég hitti einu sinni lækni, hann var kaldhæðinn maður og ég held að honum hafi leiðst sjúklingar sínir. Hann sagði við mig í óspurðum fréttum, þegar ég kom inn á læknastofuna hans, að hann væri viss um að bakveiki væri í 90 prósent tilvika geðveiki, í skilningnum hystería.
Jæja, enn einn fundur. Ég hef fimm mínútur til að finna mynd fyrir dagbókina. Ég tók mynd af vorblómum í morgun og hafði hugsað mér að hún skyldi prýða dagbókarfærslu dagsins.