Ég sit nú, klukkan 23:02 á laugardagskvöldi, og skrifa í dagbókina mína. Sannarlega á elleftu stundu eins og sagt er. Ástæða þess að færslan er jafn síðbúin og raun ber vitni er ekki einföld. Það eru margflóknar ástæður fyrir þessari dagbókarfærslu tveimur mínútum fyrir lokun. Í fyrsta lagi er ótrúleg verkefnapressa á mér hér í höll framkvæmdanna. Mín beið enn uppsetning á þvottastatífi úti í garði með 18.000 skrúfum. Ég hef reiknað út að ef það tæki mig eina mínútu að skrúfa hverja skrúfu (sem ekki er óraunhæft) tæki það mig 18.000 mínútur (það eru 300 klukkutímar, jafnt og 7,5 vinnuvikur) bara að skrúfa allar þessar skrúfur. Ég vakna snemma morguns og mín fyrsta skýra morgunhugsun: það er ekki til setunnar boðið; ég skal leysa verkefni.
Svo er það annað sem seinkaði mér, sennilega tafði þetta annað mig töluvert meira en öll verkefnin. Í morgun vaknaði ég klukkan sex, eins og flesta morgna. Ég var kominn niður í eldhús rúmlega tuttugu mínútum síðar og byrjaði strax á að sinna verkefnum, tæma uppþvottavél, undirbúa morgunmat, sækja dagblaðið… Í miðjum þessum barningi heyrði ég eitthvað þrusk. Mér fannst það koma ofan af eldhúsþakinu. En ég brást ekki við því á annan hátt en að ég staldraði aðeins við, horfði upp fyrir mig og reyndi að átta mig á hvaðan hljóðið kæmi. Svo hélt ég áfram. Ég horfði út í garðinn sem þegar var baðaður sólskini þótt árla væri morguns. Ég kveikti á útvarpinu og hlustaði á morgunútvarp á meðan ég hellti upp á kaffi, ristaði brauð og lagði á borð. Fyrr í vetur hafði ég fengið smið til að byggja loftglugga í þakið á eldhúsinu. Þetta er vel heppnuð framkvæmd sem hleypir akkúrat réttu ljósmagni inn í eldhúsið á vinnusvæðið þar sem kaffivélin og brauðristin (ristavélin) standa. En þar sem ég athafnaði mig í ljósgeislanum við kaffivélina í morgun, sá ég skugga falla yfir mig frá þakglugganunum. Nú byrja ég nýja málsgrein.
Ég furðaði mig á hvað olli þessari skyndilegu myrkvun og leit upp í hinn nýja þakglugga. Mér til mikillar undrunnar, já svo mikillar undrunar að ég hrópaði upp yfir mig; „hó!“ fannst mér ég sjá andlit í þakglugganum sem starði niður á mig á eldhúsgólfinu. Ég pírði augun og jú, augu mín brugðust mér ekki, ég sá andlit, andlit karlmanns með svarta ullarhúfu á höfðinu. (Það var eitthvað undarlegt der á húfunni svo ég var lengi að átta mig á hvort þetta væri derhúfa eða ullarhúfa með deri). Þarna störðum við hvor á annan í nokkrar sekúndur, ég og maðurinn með ullar-der-húfuna. Ég stökk af stað, hljóp beinustu leið út, til að ná tali af náunganum og fá skýringu á veru hans á þakinu mínu klukkan hálfsjö á laugardagsmorgni.
„Hó! Hvað ertu að gera uppi á þakinu mínu klukkan hálfsjö á laugardagsmorgni?“ hrópaði ég með nokkrum þjósti frá tröppunum við anddyrið til mannsins uppi á þakinu rétt fyrir ofan mig.
Maðurinn, sem kraup enn yfir þakglugganum mínum, reisti sig aðeins við og virti mig fyrir sér. Svo stóð hann á fætur og byrjaði að skimaði í kringum sig með aðra hönd á enni til að skýla augunum fyrir sólinni. Hann horfði einbeittur í kringum sig, sneri sér hægt í 189 gráður, eins og hann leitaði einhvers. Þessar athafnir tóku nokkra stund. Og hann svaraði engu. Ég kallaði því aftur:
„Hó! Hvað ertu eiginlega að gera uppi á þakinu mínu klukkan hálfsjö…. (ég leit á úrið á vinstri úlnlið) á laugardagsmorgni,“ hrópaði ég aftur.
„Er þetta ekki Söbækvej númer 12?“ spurði maðurinn og virtist enn horfa leitandi út í fjarskann.
„Jú, þetta er Söbækvej 12.“
„Er húsið hérna við hliðina ekki Söbækvej 21?“ spurði maðurinn og horfði enn rannsakandi út í loftið, en benti þó með vísifingri vinstir handar á hús nágranna minna sem er númer 21. (Hann hélt enn hægri hönd á enni sem skyggni fyrir sólu. Því var þessi vinstrihandarbending eðlilegri en ella.)
„Jú, þetta hús er númer 21,“ sagði ég og benti líka á hús nágranna minna en notaði til þess vísifingur hægra handar.
„Ég er að leita að Söbækvej 14. Þetta hús sem ég stend uppi á er númer 12 og það er við enda götu. Hvar er þá númer 14?“
„14? Það er ekki neitt hús númer 14 við Söbækvej,“ segi ég.
„Ég fór upp á þakið á húsinu þínu þar sem ég taldi mig geta séð hús númer 14 frá þaki húss númer 12. Ég ályktaði að frá húsi númer 12 hlyti að vera útsýni til húss númer 14… Ef þú skilur hvað ég meina?“
Það tók mig næstum allan daginn að jafna mig á þessari uppákomu. Því þessi seinu dagbókarskrif. Yo.