London. Stund sannleikans

„Ekkert í heiminum er jafn hættulegt góðum skrifum og að hafa of mikinn tíma, of mikið frelsi. Hömlur og hindranir eru gagnlegar og nauðsynlegar til að halda þér frá verki. Maður þarf nefnilega að koma skjögrandi að lyklaborðinu, aðframkomin af löngun til að skrifa, full örvæntingar. Þú þarft hreinlega að þrá að komast af með það sem þú hefur velt vöngum yfir, öllu því sem þú spekúlerað fram og til baka yfir, öllum nýju lausnunum, nýju sjónarhornunum… “

Á móti mér situr ung kona og talar. Hún hefur lokið við að skrifa eina af umtöluðustu bókum bókamessunnar í London. Henni liggur mikið á hjarta þessari ungu konu. Hún er öll úr jafnvægi eftir atburði síðustu daga sem hafa feykt henni inn í sviðsljós bókabéusa. Hún er á miðju sviðinu og allra augu beinast að henni. Peningar í milljónavís streyma til hennar. Og svo situr hún á móti mér í gulu dressi, eins og aðalpían í Kill Bill. En hún er ráðvillt og henni er niðri fyrir. Hún vill halda í höndina á mér. Hún vill að ég leiði sig.

Ég hitti tvo aðra menn sem virtust hafa þunga heimsins á herðunum sér og þurftu einhvern til að bera hlassið með sér.  Fyrst hitti ég hollenskan útgefanda, ágætan vin minn sem hefur verið jafnlengi og ég í bókabransanum.
„Ég er 53 ára og allt mitt líf hefur snúist um að gefa út bækur. Ég er inn í eilífðarspíral sem getur verið  þægilegur ef maður lætur sig bara berast áfram. En ég er búinn að fá nóg og hef sagt upp vinnunni. Ég tek tveggja mánaða frí. Fyrst ætla ég að vera mánuð i London og ég hef fengið starf sem aðstoðarmaður hjá tveimur forlögum hér í London. Ég vonast til að kynnast nýjum aðferðum, fá inspiration. Svo ætla ég að vera einn mánuð uppi í fjöllunum á Spáni og ganga, ekki hugsa um neitt. Svo kem ég til Hollands og stofna nýtt forlag og byrja alveg á byrjuninni. Opna lítið forlag og hafa kannski tvo aðra með mér.“
Honum virtist létt, vini mínum. „Nú byrjar nýr kafli,“ sagði hann og ég sá ekki betur en þunn slykja legðist yfir augu hans.

Ég hitti nokkra Íslendinga á messunni. Það minnir mig á gamla daga. Í leigubílnum á leið til messu sá ég í gegnum glugga leigubílsins Pėtur Má standa við götuvita og bíða eftir merki til að fá að ganga yfir götuna. Það var rautt ljósið sem lýsti á Pétur Má, en hann lét ekki á neinu bera heldur horfði leitandi upp í glugga húsbyggingar andspænis honum. Við komum samtímis að messuinnganginum, við Pétur. Hann er varkár maður í samskiptum og það tekur hann alltaf örlítinn tíma að þreifa á viðmælanda sínum til að sjá hvar hann stendur. En ég fann að Pétri lá margt á hjarta, líka hann hafði þunga heimsins á herðunum. Ekki að hann bæri sig illa, þvert á móti. Það var bara margt sem hann vildi segja, útskýra fyrir mér, án þess að það væri einhver sérstök trúnaðarmál. Hann vildi bara setja sjálfan sig og aðra sem hann umgengst í sína stöðu á vellinum og útskýra hlutverk þeirra, hvernig þeir spila sína stöðu.

Ég hitti líka Halldór Guðmundsson, hann var léttur sem fiðrildi. Hann hafði fengið vængi og enginn staður í veröldinni var honum lokaður. Allir vegir færir og allt var mögulegt. Og ég hitti Sigþrúði Gunnarsdóttur. Hún er nú kona með báða fætur á jörðinni; hún gengur þangað sem hún vill. Það er ekkert rugl í kringum þá ágætu og glöðu konu. Og svo hitti ég nýju forlagsstúlkurnar Maríu Rán og Öglu. Þær eru enn fullar af sakleysi sem vekur bæði hlýjar tilfinningar og örlitlar áhyggjur hjá gömlum forlagshundi eins og mér. Og svo rakst ég á Egil Jóhannesson, stórforleggjarann, sem reyndi að stríða mér án þess að hitta á mína veiku bletti. Hann skaut langt framhjá, hehe.

Í dag er örlagadagur. Eða. Í mínum huga getur margt gerst í dag. Kannski kaflaskipti.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.