Espergærde. Smalinn tilnefndur

Á messunni í gær voru nokkrir einstaklingar sem óskuðu mér til hamingju með Jón Kalman og Bookertilnefninguna. Ég var svo sem ekki viss afhverju fólk var að óska mér til hamingju; var það af því við vorum báðir Íslendingar, var þar vegna þess að ég hafði einu sinni gefið út bækur skáldsins eða var það vegna þess að við erum vinir? Hvað um það ég tók að sjálfsögðu þátt í gleðinni í kringum viðurkenninguna sem Kalman fær. Þetta er hreinlega ótrúlegt að smali frá Íslandi fái þennan mikla heiður. Sennilega eru bara 0,0001% allra höfunda í heiminum sem ná slíkri upphefð á ferli sínum. Sannarlega stórkostlega flottur árangur og sýnir hvað vilji, ákefð og innileg helgun í starfi getur fleytt manni langt.

Við komum heim frá London í nótt. Fluginu seinkaði nokkuð svo biðtíminn í Gatwickflugstöðinni var langur. Síðasti fundur gærdagsins var klukkan 14:00 til 17:00 og tók meira á mig en ég hafði eiginlega reiknað með. Ég átti von á að hitta einn mann á hóteli í London, steinkasti frá messunni. Ég bjóst við notalegu spjalli yfir bjórglasi þar sem fortíð og framtíð fengi bæði heimspekilegan og ævintýralegan blæ. Hótelið reyndist í hálftíma akstursfjarlægð frá messunni, ansi mikið luxushótel við bátabryggju sem kallast Chelsea Harbour. Í anddyrinu tóku á móti okkur stimamjúkir þjónar með pípuhatta og í síðum frökku.  Okkur var vísað til fundarherbergis þar sem okkar beið ekki bara einn maður heldur her manna; þrír velklæddir karlar og ein velklædd kona. Eftir stutt kurteisishjal voru dregnir fram pappírar og upphófust nú samræður í frekar áköfu og ákveðnu tónlægi, umræður sem ég átti ekki von á að væri viðfangsefni dagsins. Eftir þriggja tíma samtal þar ég þurfa að útskýra efni sem ég hafði gert ráð fyrir að þegar væri upplýst.

Í lestinni út á flugvöll var ég því bæði uppgefinn og vonsvikinn. Mér fannst ég hafa eytt mikilli orku í þennan fund og mér fannst satt að segja ég eyða óþarfa mikilli orku.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.