Espergærde. Í gulum samfestingi

Hann situr enn í mér fundurinn sem ég átti með ungri skáldkonu sem svo algerlega og óvænt hefur slegið í gegn, eins og það er kallað, á hinni alþjóðlegu bókasenu. Bókin hennar er enn ekki komin út, hvorki í heimalandinu né annars staðar en samt er hún umtalaðasti höfundurinn í heimi útgefenda þar sem bókin er seld til 38 landa. Hún er 28 ára. Hún lítur út og aðalpesónan í Kill Bill, hávaxin, grönn og ljóshærð. Og ég held að það sé ekki tilviljun að hún er klædd í gulan samfesting á fundi okkar. Við sitjum hlið við hlið við (þrjú við í röð, yo) langt barborð á hálftómum bar í þröngri hliðargötu í Chelsea hverfinu í London. Músikin sem streymir úr hátölurunum er augljóslega uppáhaldstónlist barþjónsins sem syngur með af innlifun og tekur ósjálfráð dansspor og sveiflur þegar lögin ná hámarki sínu.

„Ég var skelfingu lostin þegar ég ákvað að verða rithöfundur,“ segir hún og er furðulega skýrmælt. „Ég var svo hrædd um að ég mér mistækist. Ég hafði lagði allt í sölurnar. Sagt upp vinnu, flutt inn í pínulitla og ódýra íbúð. Ég var skítblönk og ég hafði engar tekjur en ég ákvað samt að stökkva. Ég var dauðhrædd við að setjast við skriftir. Þegar ég vaknaði á morgnana varð ég bókstaflega að þvinga mig til að byrja að skrifa. Ég gerði samkomulag við sjálfa mig. Þú skrifar í þrjá klukkutíma frá því þú vaknar, án þess að líta upp. Þetta virkaði. Síðurnar urðu fleiri dag frá degi. Sagan óx. Þrjúhundruð og sextíu dögum síðar hafði ég lokið við að skrifa mína fyrstu skáldsögu.“

„Það er gott að byrja á morgnana. Ég er sterkari á morgnana, augun sjá betur, efinn hefur ekki náð tökum á mér. Á morgnana er allt mögulegt.“ Hún brosir. Það er tregi í brosinu. Skáldkonan tekur stóran sopa af bjórnum. Hún drekkur hratt. „Ég byrja þó alltaf á því að endurskrifa það sem ég skrifaði daginn áður. Það er til þess að hita mig upp fyrir sjálf skrifin. Og svo kemst ég í gang og þá er eins og ekkert geti stoppað mig. Þetta er sá tími sem ég er glöðust.“ Hún horfir niður fyrir sig, hún horfir inn í sig. Lítur svo upp og tæmir bjórglasið.

„Viltu meiri bjór?“ spyr ég sem varla er búinn að fá mér sopa af mínum eigin bjór.
„Já, takk. Fyrirgefðu hvað ég drekk hratt. Ég gleymi mér.“ Þögn. Hún hugsar sig um. „Annað sem hefur hjálpað mér. Ég æfi box og akito. Fimm sinnum í viku.“
„Vá,“ segi ég og tek nú eftir að hún lítur út eins og bardagamaður. Hún er bæði vör um sig og alltaf tilbúin til árásar.

Það var á þessu augnabliki sem flokkur íslenskra karla frá bókamessunni kom inn, þeir höfðu verið saman á fótboltaleik og voru bæði æstir og hávaðasamir. Ég ákvað að læðast óséður út.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.