Espergærde. Vankaður í smábæ á Sjálandi.

Ég hef átt svo annríkt síðustu daga að ég hef ekki einu sinni gefið mér tíma til að svara póstum sem mér hafa borist frá vinum og kunningjum. Það finnst mér gífulega slappt þar sem mér finnst bæði gott og gaman að fá kveðjur. Ég hef unnið fram á nótt, ég hef vaknað fyrir allar aldir og er orðinn algerlega ruglaður í hvaða dagur er og hvar í mánuðinum við erum. Í gær lagðist ég upp í rúm klukkan 22:00 og byrjaði að lesa en fann fljótt að ég var ekki maður til að lesa. Ég sofnaði fljótt og vaknaði eiginlega um miðja nótt við það hvað ég svaf vel. Ég hugsaði með mér þetta stutta vökuaugnablik: „ég sef eins og hestur.“ Ekki veit ég hvaðan sú hugsun kom. En ég svaf vel og vaknaði úthvíldur en jafnruglaður og áður.

Í morgun í sturtunni greip mig örvænting. Ég mundi allt í einu að ég átti að vera mættur í tennis klukkan 08:00. Var ekki miðvikudagur? Úps, ég verð að minna Jesper, Lars og Piu á tennis, hugsaði ég. Ég greip símann minn og byrjaði að skrifa SMS: „Hó! Ég var að uppgötva að það er miðvikudagur. Tennisdagur! Komiði ekki?“ Ég var um það bil að fara að ýta á send-hnappinn þegar ég áttaði mig á að tennisinn er á fimmtudagsmorgnum og hefur verið á fimmtudagsmorgnum síðustu marga mánuði.

Ég heyrði utan af mér að haldinn hefði verið samkoma í Háskólabíó til stuðnings áframhaldandi lífi Fréttatímans, eða eins og boðendur fundarins kölluðu það, til stuðnings alvöru blaðamennsku, eða eitthvað í þeim dúr. Ég varð eiginlega dálítið hissa og held kannski að ég sé að misskilja eitthvað hér í útlöndunum. Fréttatíminn hefur aldrei verið sérstakt blaðamennskublað? Eller? Er Fréttatíminn ekki fyrst og fremst auglýsingar og styttri fréttir? Jú, pistlar Gunnars Smára eru prentaðir í blaðinu. Kannski var þessi fundur boðaður til stuðnings blaðamennsku Gunnars Smára? Ég þarf eiginlega að rannsaka þetta. Það er margt sem ég vil styðja til að efla menningu og mannlíf á Íslandi. Og alls staðar í heiminum. Öflugur fjölmiðill með áhuga á stjórnmálum og listalífi  er eitt af því sem mér finnst sérstaklega mikilvægt en ég vissi ekki að Fréttatíminn hafi náð að skipa mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi. Náð að efla umræðuna um samfélagsmál og fjallað á áhugaverðan hátt um lista- og menningarlíf.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.