Espergærde. Daglegar framfarir

Ég er stundum í svo skrýtnu skapi að það er eins og allt inni í mér sé að springa. Inni í mér er órói og ég er reiður út í fólk sem mér finnst hafa brugðist mér á einhvern hátt. Þessi tilfinning varir í nokkrar mínútur svo er ég aftur ég sjálfur.

Ég var í jóga í morgun. Einginlega kemur mér á óvart að ég er orðinn svo ánægður með þetta jóga. Ég kann vel við leiðbeinandann og mér finnst ég taka framförum. (Framfarir: alltaf kemur í huga minn það sem pabbi minn presturinn sagði í messunum sem ég gekk til sem barn: „að taka daglegum framförum í kristilegu hugarfari.“ Eða það sem Húbert Nói sagði þegar verkstjórinn okkar í bæjarvinnunni keyrði hratt á Volkswagen bílnum: „Gunnsteinn, þú setur stanslaus hraðamet.“) En þetta var útúrdúr. Ég lá í einhverri jógastellingu í morgun og jógakennarinn sagði: „Nú skuluð þið einbeita ykkur að því að finna hvað þið viljið skilja hér eftir þegar þið farið heim og hvað á að koma í staðinn.“ Mér varð strax hugsað til þessa óróa í brjóstinu, reiðinni sem stundum brýst fram. Merkilegt hvernig hugurinn leikur sér með mig.

Í gær heimsótti Jón Karl mig og við fórum saman niður á ítalska veitingastaðinn Il Divino og fengum okkur bjór og snarl. Jón Karl var í banastuði og sagði mér á svo innlifaðan hátt frá verkefnum sínum að mér fannst eiginlega ég vera orðinn hluti af þeim. Ég vildi að ég hefði fleiri svona menn, eins og hann Jón Karl, í kringum mig hérna á Norður-Sjálandi. Mér finnst eins ég fái vítamínsprautu. Ég lifna allur við. Það er verst hvað slíkir menn eru sjaldgæfir.

ps. Það er eitthvað svo flott þegar enski tónlistarmaðurinn Sampha syngur: „I loved those mornings, when the sun’s up.“ Hann syngur þessi orð sérstaklega fallega í söngnum Plastic 100°C. Þetta voru aukaupplýsingar.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.