Espergærde. Maður póstþjónustunnar

Hér í Espergærde er búið að loka pósthúsinu. Gamla, fína pósthúsinu, þar sem þrjár eldri konur afgreiddu mann með háttvísi og móðurlegri hlýju, hefur nú verið breytt í nútíma apótek með afgreiðslunúmerum og hvítklæddir lyfjafræðingar með þýsk spangarlaus gleraugu sjá um hina móðurlegu hlýju. Póstkonurnar þrjár tóku alltaf vel á móti mér, leiðréttu í mér vitleysuna og beindu mér á rétta braut. Eftir að pósthúsið lokaði getur maður sótt og sent póst hjá tveimur kaupmönnum hér í bænum, annar rekur litla fína vínbúð en hinn rekur skelfilega óreiðusjoppu. Þar eru hillurnar annaðhvort tómar eða yfirfullar af einhverju undarlegum túbum og dósum og maður veit ekki einu sinni hvort innihaldið er ætlað til að neyslu, til að setja í hárið á sér eða til að þvo þvott.

Í morgun fór ég að ná í póst hjá þessum óreiðukaupmanni þótt það væri sunnudagur. Hann, eins og ég, er útlendingur í Danmörku. Hann kemur frá einhverju landi í Arabíu, held ég, en ég kem frá Íslandi. Hann er ansi skapstyggur þessi litli kaupmaður og póstþjónustan sem hann hefur tekið að sér, fer óendanlega mikið í taugarnar á honum. Pirringinn tekur hann út á þeim sem eiga póstviðskipti við hann.

Í morgun þegar ég kom að sækja pakka stóð litli kaupmaðurinn á bílastæðinu fyrir utan búðina sína og sleikti sólina. Búðina hefur hann opna frá því snemma á morgnana og langt fram á kvöld. Og alltaf er hann í búðinni, litli kaupmaðurinn, morgna sem kvöld.

Klukkan var rétt að verða tíu og enginn var vaknaður til að sækja póst eða kaupa túbu eða dós af einhverju jukki þegar mig bar að garði. Hann sýndi engin merki um að hafa orðið var við mig þegar ég lagði bílnum í bílastæði og gekk fram hjá honum þar sem hann stóð og beindi andlitinu upp í sólina með lokuð augu. Ég gekk bara inn í búðina og tók mér stöðu við afgreiðsluborðið og fann fram póstseðilinn, ávísunina á pakkann sem ég var að sækja. Ég leit út í gegnum búðargluggann og sá að kaupmaðurinn hafði ekki haggast frá því ég gekk framhjá honum. Hann stóð enn grafkyrr mitt úti á bílaplaninu og lét sólina skína á andlitið. Ég ákvað að bíða rólegur og leyfa manninum að njóta þessarar sjaldgæfu stundar þar sem hann stóð ekki inni í búðarholunni heldur fyrir utan hana. Tíminn leið og mínúturnar siluðust áfram þar sem ég hallaði mér upp að afgreiðsluborðinu og andaði að mér búðarfýlunni en hann stóð sem fyrr kyrr úti á bílastæði og sleikti sólina. Eitt augnablik datt mér í hug að hann gæti sofið standandi, eins og hestur. Kannski væri hann bara sofandi. Ég hinkraði og fylgdist með manninum sem var grafkyrr og ég sá að brjóstið lyftist og hneig í hægum og þungum andardrætti. Var hann sofandi? Hann hafði óvenju lítið höfuð og ofan á hausnum var afar fíngert og þunnt, svart hár. Hann var ekki gamall, kaupmaðurinn, kannski fjörutíu ára. En það var ekki bara höfuðið sem var lítið, hann var bara lítill maður og gráu buxurnar hans með buxnabrotinu hefðu passað á Davíð sem er 11 ára.

Ég ákvað að ganga út á bílaplan til kaupmannsins smávaxna. Ég gat ekki bara staðið við afgreiðsluborðið í heila eilífð án þess að gera neitt. Því tók ég mér stóðu við hlið mannsins sem sýndi engin merki um að hafa vaknað. Það var ótrúlega mikill hárvöxtur í eyrunum á honum. Svartir lokkar stóðu út úr eyrnaropinu: „Fyrirgefðu. Ertu nokkuð sofandi?“ spurði ég hikandi.
Maðurinn opnaði augun og leit hvatvíslega á mig. Hann sagði ekki neitt en virti mig fyrir sér og það var eins og hann væri smám saman að komast í vökutilstand.
„Sofandi? Nei! Hvað vantar þig?“
„Ég er að ná í pakka.“
„Pósthúsið er lokað.“
„Hvað meinarðu, pósthúsið er lokað? Er ekki opið?“
„Búðin er opin en pósthúsið er lokað.“
„Nú. Hvenær opnar pósthúsið?“
„Það veit ég ekki. Ekki núna, kannski seinna í dag.“
„Heyrðu, ég þarf bara að ná í einn pakka. Geturðu ekki afgreitt þennan eina pakka.“
„Nei. Pósthúsið er lokað.“ Hann leit undan, lokaði augunum og setti sig aftur í sömu stellingu. Samtalinu var lokið.

Ég gafst upp. Ég nennti ekki að deila við þennan litla og skapstygga mann dönsku póstþjónustunnar. Pakkann sæki ég á morgun.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.