Espergærde. Þokulúðrar og bókmenntagetraun.

Það er þoka yfir Espergærde þennan morgunn og á göngu minni til vinnu heyrði ég stóru fragtskipin þeyta þokulúðra á siglingu sinni hér á Eyrarsundinu. Ég sá fyrir mér hvernig þungfermd skipin mynduðu göng í gegnum þokuvegginn á ferð upp með ströndinni.

Ég ákvað að klára erindi mitt hjá litla kaupmanninum upp á Mørdrupvej og fá pakkann sem hann neitaði að afhenda mér í gær. Ég var viss um að hann væri mættur þótt klukkan væri ekki orðin átta. Hann er alltaf í búðinni. Ég held að hann sofi þar standandi við búðarkassann.

Gangan til kaupmannspósthússins tekur tíu mínútur, upp lengstu brekku Espergærde, Mørdrupbrekkuna svokölluðu. Ég gekk greiðlega svo hjartað sló hraðara og andradrátturinn varð örari. Þegar ég kom að búðinni var járngrind dregin fyrir glugga. Þetta hafði ég aldrei séð fyrr hjá kaupmanninninum. Ég lagðist á rúðuna og sá að litli kaupmaðurinn stóð við afgreiðslukassann, enn í gráu buxunum sínum. Enginn var inni í versluninni en samt var eins og kaupmaðurinn væri í viðbragðsstöðu, tilbúinn í næsta viðskiptavin. Ég gekk að búðardyrunum og tók í húninn, viss um að búðin væri læst. En mér til undrunar var hurðin ólæst og ég gekk inn.
„Alló, góðan daginn,“ sagði ég hressilega og staldraði við í dyrunum. „Það er opið… eða það er opið…?“
„Já, það er opið, þú stendur í opnum dyrum,“ sagði kaupmaðurinn á sinni bjöguðu dönsku. Það var hinn vanalegi pirringur í röddinni.
„Já, ég stend í opnum dyrum. En nú spyr ég: Er búðin opin eða er pósthúsið opið eða hvort tveggja?“
„Ha? Þetta þarftu að endurtaka.“
„Er búðin opin eða er pósthúsið opið eða hvort tveggja?“
„Pósthúsið er opið en búðin lokuð,“ sagði kaupmaðurinn ákveðinn. Hann hafði tekið þessa ákvörðun um afgreiðslutíma á sekúndubroti.
„Fínt, ég þurfti nefnilega að sækja pakka,“ sagði ég og gekk upp til afgreiðsluborðsins og afhenti póstseðilinn. Ég sá hvað kaupmaðurinn varð vonsvikinn. Hann hafði greinilega ætlað að útiloka mig en hann tók við seðlinum og las það sem á honum stóð. Hann var fullur efasemda, því hann las upplýsingarnar af seðlinum aftur og aftur.
„Skilríki, takk,“ sagði kaupmaðurinn og henti seðlinum á borðið.
Ég dró fram ökuskírteinið mitt sem hann grandskoðaði, henti því svo harkalega á borðið að það rann niður á gólf. Kaupmaðurinn snerist á hæli og kom að vörmu spori með pakkann sem hann skellti á borðið fyrir framan mig og gaf til kynna með andlitssvip sínum að hann hefði ekki fleira að segja við mig.

Ég gekk út og hugsaði með mér: Ætti ég kannski að búa til nýja bókmenntagetraun á Kaktusnum. Í Hamborgarfabrikkunni í Reykjavík (við Höfðatorg) stendur ein bók í hillu. Þetta er skáldsaga skrifuð á íslensku. Hver er titill bókarinnar og hver er höfundur? Verðlaunin að þessu sinni er draumaferð fyrir tvo ásamt ríflegum farareyri.

dagbók

Skildu eftir svar