Espergærde. Hinn hrasandi maður sendir fjöldapóst.

Ég sendi út fjöldamail í gær og tókst að hafa ásláttarvillu í subject línunni. Ég skrifaði „Þú ættir ekki að túra öllu sem þú lest.“ En átti auðvitað að standa: „Þú skalt ekki trúa öllu sem þú lest.“ (Þetta var sem sagt á dönsku (Du skal ikke tro (tor) alt hvad du læser)). Fjöldamailið sendi ég út í þúsundatali til þeirra sem skráðir eru  á póstlistann hér á forlaginu. Sumir hafa ekki húmor fyrir slíkri hrösun. Ég var auðvitað í öngum mínum yfir að hafa yfirsést þessi ásláttarvilla en ég er stundum svo hrikalega lesblindur. Í gærkvöldi og í morgun hafa komið mail frá þremur hneyskluðum viðtakendum. Ég hef svarað, en ég er svo gallaður, að ég get ekki látið vera að smyrja ískaldri kaldhæðni yfir svarið þar sem ég útskýri á nákvæmu máli hvað átti að standa í yfirskriftinni. En nú er ég búinn að jafna mig. Það getur verið erfiðisvinna að vera hinn hrasandi maður.

Í gær sendi ég líka út bókmenntagetraun. Enginn svaraði rétt þrátt fyrir góða tilburði nokkurra þátttakenda. Einn sagðist hafa googlað bókahillur í Hamborgarafabrikku og annar ákvað að nota tækifærið og fá sér hamborgara í Fabrikkunni og finna um leið svarið við spurningu minni. Enginn sá bókahillur og en síður bók eða eitthvað sem minnti á bók á hamborgarastaðnum. (Matseðillinn er prentaður sem dagblað.)

En ég hef mynd máli mínu til sönnunar. Í bókahillu í Hamborgarafabrikkunni, undir blómavasa, liggur bók. Íslensk bók skrifuð af séra Arngrími Jónssyni. Litúrgía. Útgefin af bókaforlaginu Bjarti árið 2007. (Sjá mynd).

bok i hillu

Senan er eldhús, búið húsgögnum frá 1970. Eldhúsið er mjótt og langt. Birtan kemur inn um langan og mjóan glugga. Í öðrum enda eldhússins, upp við vegg, stendur eldhúsborð og í kringum það 3 stólar. Við borðið sitja tveir menn, andspænis hvor öðrum, annar um fimmtugt og hinn fjörutíu árum eldri. Það er morgunn.

Sá eldri: Viltu ekki mjólk út á hafragrautinn?
Sá yngri: Nei, takk. Þetta er fínt svona.
Sá eldri: Hvað? Viltu ekki mjólk? Það er miklu betra.
Sá yngri: Nei, takk.
Sá eldri: Drekkurðu ekki mjólk?
Sá yngri: Nei. Ég drekk aldrei mjólk.
Sá eldri: Það er ómögulegt. Þú verður að drekka mjólk.
Sá yngri: Þetta er í fínu lagi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.