Espergærde. Póstkort frá gömlu sumri

Ekki veit ég hvað veldur en það er eins og ég sé ekki öllum gleymdur á Íslandi. Þegar ég kom hrakinn heim úr vinnu í gær beið mín í póstkassanum forvitnilegt póstkort. Þetta var upplífgandi póstsending. Ég hafði eytt allt of mikilli orku bæði á mánudaginn og þriðjudaginn í að bíða eftir samtali við mann sem hafði lofað að hringja á mánudaginn. Mánudagurinn leið án þess að herramaðurinn léti í sér heyra og það var komið undir hádegi þriðjudags þegar tölvupóstur barst frá hinum svikula manni þar sem hann bar fyrir sig tímaskort og sagðist eiginlega ekki mega vera að því að tala við mig fyrr en seinna í vikunni. Ég reyndi að hringja til hans en hann svaraði aldrei símanum. Ég var því vonsvikinn, framlágur og lúpulegur þegar ég opnaði póstkassann minn.

Á framhlið póstkortsins var gömul ljósmynd úr íslenskri sveit, með kúm og fornu ökutæki (fornbíl mætti sennilega kalla farartækið á myndinni)  í forgrunni myndarinnar. Fornbíllinn á póstkortinu hefur skráningarnúmerið Z 194. Voru slíkir bílar ekki úr Skaftafellssýslu? Á bakhliðinni var ritað með svörtu bleki. Handskrifuð hæka:

Hæka handa Snæbirni (það er ég)

björt júnínótt –
lotinn yfir
ársreikningunum

Póstkortið er stílað á mig búsettan í pósthólfi 447, 121 Reykjavík. Þetta var einmitt póstfang Bjartsforlagsins þegar póstkortið var ritað í höfuðstaðnum þann 13. júlí 1993. Bréfritari virðist hafa geymt þetta í skúffum sínum og fundið einhverja ástæðu til að senda mér póstkortið núna, tæpum tuttugu og fimm árum eftir að kortið er skrifað.

Með daufri blýansskrift neðst á kortinu stendur:
„Til minningar
um gamalt sumar.
Fann þetta í fórum mínum.“

Árið 1993. Sumarnótt. Aldrei hef ég stúderað ársreikninga en kannski hef ég haft áhyggjur af afkomunni þetta sumar? Það er ekki ólíklegt. Ég googlaði hvaða bækur Bjartur hafði gefið út sumarið 1993 og fann eina bók: Ytri höfnin eftir Braga Ólafsson. Það fannst mér fín bók og ég man að ég, fyrir mína hönd, var stoltur af útgáfunni. Sennilega hefur þó Ytri höfnin ekki hjálpað upp á niðurstöður ársreiknings ársins 1993.

ps. Merkilegt að hugsa til þess að árið 1993 var ég bæði yngri en börnin mín Sandra og Nói eru núna og næstum jafnaldri Sölva.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.