Espergærde. Áfram

Vinkona mín á brautarpallinum hér rétt fyrir utan gluggan syngur hástöfum:
„Oh give me the words
Give me the words
That tell me everything…“

Hún biður ekki um lítið, unga stúlkan. Ég held að hún viti ekki hvað hún syngur hátt, hún er með stóra headphones á hausnum og þegar ég lít út um gluggann sé ég að hún stendur með lokuð augun.

Ég er seinn á skrifstofuna í dag. Jógadagur; jóga frá átta til hálftíu. Í einn og hálfan tíma situm við átta eða níu í fínni, stórri, bjartri stofu; gluggar frá gólfi og upp í loft á þremur veggjum. Ég er hlægilegur jógamaður. Mottan undir mér hefur tilhneigingu til að krumpast og flækjast. Motturnar hjá hinum eru sléttar eins og straubretti. Þetta er svo líkt mér, en ég segi líka við sjálfan mig, þú er ágætur, Snæi minn.

Seinna í dag keyri ég til Horsens á Jótlandi og verð með ítalskan höfund (sem ég sæki á flugvöllinn í dag) í eftirdragi alla helgina. Í Horsens er bókamessa fyrir glæpahöfunda. Minn ítalski glæpahöfundur kemur frá Bari og er þægilegur maður og vinsamlegur svo það verður allt í fínu. En ég er bara orðinn svo nískur á tíma minn að ég tími varla helginni í þetta.

Þessa dagana er lítið um svefn, ég vinn alla daga langt fram á nótt. Nú þýði ég bók. Þegar ég er búinn að borða kvöldmat er ég þreyttur og langar að sofa.  En ég sest við tölvuna og þá vakna ég aftur og gæti setið fram á miðja nótt. Byrja eftir kvöldmat og svo þýði ég þar til ég lognast út af og svo vakna ég klukkan rúmlega sex.  Ég gef út bækur á daginn svo ég neyðist til að vakna snemma. Nú má ég bara passa að vera ekki of lengi á fótum. Áfram.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.