Horsens. Nútíminn er trunta og skólaus Ítali

Morgunn á hóteli í Horsens. Ég sit í móttökunni og hér er bæði hátt til lofts og vítt til veggja. Klukkan er orðin 11 og ekki mikið um að vera hér í anddyri hótelsins þar sem eru sófar og borð og bar og ég veit ekki hvað.  Hér er ég einn við borð. Af og til ganga gestir hótelsins hér framhjá mér og út í sólina.

Í bænum, sem er mitt á Jótlandi,  er hin árlega krimmamessa og við erum með okkar góða glæpahöfund Carofiglio með í för. Það er full dagskrá í gamla fangelsinu í Horsens frá morgni til kvölds og glæpasagnahöfundar frá öllum heimshornum koma fram. Hér er líka hin íslenska Yrsa Sigurðardóttir í för með forleggjara sínum Pétri Má. Hún tekur á móti verðlaunum í dag fyrir bestu þýddu glæpasöguna 2016. Það er aldeilis flott. Ég hitti þau fyrir tilviljun á veitingastað niður í bæ. Ég hef aldrei séð Yrsu en ég get upplýst að Yrsa var á þykkbotna hvítum skóm fyrir þá sem eru áhugasamir um skóbúnað frægra rithöfunda. Okkar maður Carofiglio er í brúnum skóm en botninn datt úr þeim í gær. Hann var miður sín höfundurinn yfir fótabúnaði sínum og það fyrsta sem hann gerði í morgun var að spyrja um skóbúð þar sem hann gæti keypt nýja skó. Nú er Sus úti í skóbúð að finna skó fyrir Ítalann.

Í gær borðuðum við með gesti okkar á nýju veitingahúsi hér í bænum og buðum blaðamanni áhugasömum um Ítalíu með. Blaðamaðurinn er hreint ágætur maður en þetta var sennilega ekki góð blanda við borðið. Ég er frekar þreyttur á fólki sem hefur sjálvirkar skoðanir. Og blaðamaðurinn var einn af þeim. Maður segir bíll þá segir hann, „uss, bíll, ég á bara druslu, helst vil ég hjóla.“

Maður segir sími. „Uss, sími, ég á bara gamlan síma sem ég get næstum ekki notað.“

Tennis segi ég. „Uss, tennis, það er snobbíþrótt.

Google segi ég. „Uss, Google. Þeir njósna um mann. Ég er ekki að grínast þeir hlera það sem við tölum um núna. Einu sinni vorum við kona mín úti að ganga og töluðum um ryksugur og þegar við komum heim voru ryksugur á öllum tölvunum okkar.

Rennandi vatn segi ég: „Uss, rennandi vatn. Ég var í bústað í vikunni án rennandi vatns og það var bara frábært.“

Ég segi visakort: „Uss, Visakort. Ég nota bara reiðufé. Annars vita „þeir“ ef ég fer á barinn.“

Bankar: „Samsafn vondra manna. Sem hugsa bara um að græða peninga.“

Gamma: „Gamma, það eru bara vondir menn sem vilja græða peninga og níðast á fólki. Ehh… hvað er Gamma?“

Allt var þetta á sjálfvirkninni. Fyrirframgefnar skoðanir eru bara ekki nógu hressandi. Nútíminn er trunta.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.