Ég var að lesa að Sigurður A. væri dáinn. Honum á ég aldeilis margt að þakka, þeim eldhuga. Ég man þegar ég hringdi í hann í fyrsta skipti, með hjartað í buxunum, því ég vildi fá hann til að þýða fyrir mig bókina Dreggjar dagsins (The Remains of the Day). Þetta var ein af þeim fyrstu bókum sem ég gaf út og ég vildi fá góðan þýðanda að bókinni og ákvað að hringja í Sigurð.
„Halló, já, góðan daginn. Er þetta Sigurður A.?“
„Já.“
„Ég heiti Snæbjörn. Og ég rek bókaútgáfuna Bjart.“
„Hvað segirðu, hvaða bókaútgáfu?“
„Bókaforlagið Bjart… eh, það er sko nýtt forlag.“
„Nú, já. Olræt, nýtt forlag…“
„Ég vildi spyrja þig hvort þú hefðir nokkuð tíma til að til að þýða bók fyrir mig.“
„Altso…. hvaða bók er það?“
„Það er bókin sem vann Booker-verðlaunin í ár. The Remains of the Day.“
„Olræt … en … ég er upptekinn, ég er að þýða fyrir hann Arnbjörn… altso, en olræt… komdu með bókina… þetta er ekki einhver bévítans doðrantur…?“
„Nei, nei. 250 síður eða kannski 300 síður… það er ekki svo mikið á síðunum.“
„Olræt… komdu í kvöld klukkan ellefu… og ef þú hringir í mig aftur þá máttu alls ekki hringja í mig svona snemma, aldrei fyrir klukkan þrjú á daginn. Ég sef á daginn… olræt, klukkan þrjú er ég búinn í sundi. Þá er hægt að tala við mig. Ekki fyrr.“
Eftir þetta samtal varð Sigurður hirðþýðandi minn á tímabili og hann reyndist mér mjög vel. Ekkert nema hvatningin og mér leið stundum í samvistum við Sigurð eins og ég væri að bjarga menningarlífi Íslands. Síðar varð ég hirðtölvumaður hans. Ég kenndi Sigurði á tölvu – sem hann hætti aldrei að þakka mér fyrir – og honum fannst ég bera ábyrgð á að tölvan hans virkaði. Það voru því ófá símtölin mitt um nótt þar sem Sigurður var öskuillur á hinum enda línunnar. Hann var brjálaður út í mig fyrir að tölvan hans hlýddi honum ekki. Ég átti bara að skilja að þetta var allt á minni ábyrgð, ég hafði þvingað hann til að skrifa á tölvu. Og nú skyldi ég koma, á stundinni, hann gat ekki unnið og það var mér að kenna.