Espergærde. Blindskák fyrir bókmenntafræðinga.

Að tefla blindskák er góð skemmtun. Ég er í blindskákssambandi við tvo menn um þessar mundir. Þeir tefla saman á móti mér og hafa aðstoðarmenn held ég. Í mínu tilfelli er þetta blindskák, ég hef ekkert taflborð en ég gruna að þeir líti frekar á keppnina sem bréfskák; þeir tefli með taflborð fyrir framan sig. Skákin hófst þann 21. desember að undirlægi mótherja míns (sem undarlegt nokk sendi fulltrúa sinn á minn fund hingað til skrifstofunnar við lestarteinana til að leggja drög að skákinni) og það tók mig nokkra daga að ákveða hvort ég ætti að taka áskoruninni. Klukkan ellefu að morgni jóladags hringdi ég og sagði að ég væri tilbúinn að tefla og svaraði hefðbundnum opnunarleik mótherja míns með nokkuð aggressívu sóknartilbrigði (f7-f5).

Skákin hefur sem sagt verið tefld síðan seinna hluta desember, staðan er jöfn og flókin, allir taflmennirnir eru enn á borðinu, enda hafa ekki margir leikir verið leiknir. Mótherji minn tekur sér óralangan tíma að svara mínum leikjum en ég leik nánasta jafnskjótt og hann/þeir hafa fært sinn taflmann. Nú á hann leik og þótt ég segi að mér finnist hann lengi að hugsa segir hann að hann vilji bara tefla vel, finna bestu leikina. Ég er samt undrandi á hvað hann teflir veikt. Nú hefur nýr maður, Jim, sagt að hann vilji leika næsta leik og lofar að það verði á fimmtudag (já, það er á morgun. Best að ég rifji upp stöðuna).

Hjólið mitt (sjá mynd) stendur enn hér á skrifstofunni og enn hef ég ekki skift um slöngu í afturdekkinu. Það er margt sem veldur. Í fyrsta lagi hef ég ómælda ánægju af að ganga til vinnu á morgnana og því fresta ég hjólaviðgerðum. Göngutúrinn að heiman tekur mig um það bil fimmtán mínútur og þær mínútur hef ég fullkomna ró í huganum. Gef mér tíma til að taka myndir á leiðinni, heilsa fólki sem ég kannast við og er líka á leið til sinnar vinnu. Á gönguleiðinni er á einum stað verið að byggja bílskúr og ég fylgist með hvernig verkinu miðar. Staldra við og spekúlera hvernig menn reisa bílskúr.  Og á öðrum stað er verið að byggja stærra hús og ég er líka áhugasamur um framvindu húsbyggingarinnar (nú eru gluggarnir komnir í). Alls staðar er gróðurinn að lifna við, páskaliljur að springa út, það eru knúppar á trjánum og grasið verður grænna með degi hverjum. Í Danmörku er logn.

Í öðru lagi átti ég tvo kassa af hjólaslöngum inni í skúr hjá mér. Í síðustu viku tók ég annan kassann með mér upp á skrifstofu og ætlaði að koma hjólinu mínu aftur á fætur en þegar ég opnaði kassann reyndist slangan vera fyrir barnahjól. Sennilega gamla hjólið hans Daf. Svo í það sinnið varð ekkert úr viðgerðunum.

Í gær kom ég með hinn slöngukassann og byrjaði enn að gera við hjólið mitt. Þegar ég ætlaði að setja slönguna á sinn stað uppgötvaði ég að ventillinn var allt of breiður fyrir ventilgatið á gjörðinni. Grrr.

Í gær kom ítalski rithöfundurinn sem ég hafði með á krimmamessuna í Horsens í heimsókn með dóttur sinni. Hann langaði að sjá danskt heimili og danskt forlag. Honum varð að ósk sinni og svo tókum við þau með okkur niður á Il Divino, ítalska veitingastaðinn við Strandvejen. Þar borðuðum við kvöldmat, drukkum ítalskt rauðvín og sátum lengi á Il Divino. Þau virtust glöð og ánægð. Þau fljúga í dag til Rómar.

IMG_9249.JPG
Hjólið mitt. Hraðskreiður fákur.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.