Óman, Múskat. Dagleg kaffiboð

Ég sendi gömlum félaga mínum e-mail í morgun. Mér var hugsað til hans og fannst orðið langt síðan ég hafði heyrt í honum.

„Komdu sæll og blessaður, elskan mín

Nú er orðið langt síðan ég hef heyrt frá þér…“ Og svo sagði honum ég hvað á daga mína hefði drifið síðustu vikurnar og hvatti hann til að senda mér skeyti yfir hafið. Ég saknaði að heyra frá honum.

Ég sat við sundlaugarbakka hér á hótelinu þar sem við dveljum, las bók og naut hitans og sólarinnar. (Hér er heitt. Í dag ar 34 stiga hiti.) Mér varð litið á símann minn og sá að félagi minn hafði svarað um hæl.

„Sæll sjálfur, kúturinn minn.

Fyrirgefðu aumingjaganginn í mér að hafa ekki látið í mér heyra. En mér líður eins og ég sé í kaffi hjá þér á hverjum degi. Ég les dagbók þína og því er eins og  rödd þín hljómi í eyrunum á mér. Svo gleymi ég að svara þér…“

Þetta svar hef ég fengið svo oft, frá hinum og þessum, eftir að ég byrjaði að hleypa öllum inn í dagbók mína. Fólk þarf ekki lengur að spyrja mig frétta og gleymir að senda mér fréttir úr lífi sínu.

Í dag hef ég spilað tennis í þessum logandi hita, fyrst á móti Núma og svo á móti einhverjum hálfprófessional, króatískum tennisspilara sem ég fann á tennisvellinum. Hann lék sér að mér, sendi mig hornana á milli og ég hljóp eins og galinn maður á eftir boltanum. Sólin sendi sína miskunnarlausu geisla sína ofan í skallann á mér, króatinn sendi boltann yfir á minn vallarhelming, ég elti boltann og skugginn af sjálfum mér stóð kyrr, nennti ekki að fylgja mér á þessum hlaupum. Ég var algerlega búinn á því eftir leikinn. Hitinn dregur allar tennur úr manni.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.