Í gær var ég á leið út af hótelinu, ætlaði að fá mér smágöngutúr og athuga hvort ég fyndi vindla í borginni Múskat, þegar kallað var á eftir mér. Ég sneri mér við og sá hávaxinn mann með rauða derhúfu koma hlaupandi á eftir mér. Hann var skælbrosandi og mér brá heldur betur í brún þegar hann opnaði faðminn og tók mig óvænt í faðm sér. Ég gat ekki annað en faðmað manninn á móti, ekki vildi ég hrinda honum frá mér, en reyndi svona hægt og rólega að mjaka mér út úr faðmlaginu.
Mitt í anddyri hótelsins í Múskat stóð ég í faðmlögum með manni sem ég hafði ekki hugmynd hver var. Faðmlagið var svo innilegt að hann gróf andlit mitt ofan í hálsmálið á sér svo ég sá ekkert nema myrkur. Þegar ég loks losnaði úr faðmi mannsins og leit upp, stóð Sus, sem hafði komið inn á hótelið í sömu mund, yfir okkur og var eitt spurningarmerki í framan.
„Simon,“ segir maðurinn af ástríðuþunga. „Enn óvænt… frábært að hitta þig hér…“
Ég horfði á manninn og reyndi af öllum mætti að skilja hvað eiginlega gengi á. Honum varð litið á Sus og enn varð maðurinn eitt ljómandi bros.
„Og þú ert… ertu konan…“
„Já, Susanne heiti ég, já ég er konan…“ sagði Sus og leit á mig og vænti þess að ég kynnti manninn fyrir henni.
„Ég er ekki Simon,“ sagði ég, horfði brosandi á manninn og ætlaði að fara að útskýra að hann hlyti að hafi farið mannavillt þegar ung starfskona úr móttökunni kom gangandi hröðum skrefum, veifandi lykilkorti – ég hef átt í vandræðum með komast inn á hótelherbergið með lykilkortinu og hafði beðið hana hana um nýtt – rétti lykilkortið fram með orðunum:
„Gerðu svo vel, herra Simon.“
Ég veit ekki hvernig þetta Simon-nafn er komið á mig. Í morgun þegar ég settist við morgunverðarborðið tók ég eftir því að þjónustustúlka ávarpaði mig sem herra Simon. Ég velti því ekki svo mikið fyrir mér þótt mér þætti það hálfundarlegt að hótelstarfsmaður kallaði mig Símon.
Maðurinn með derhúfuna brosti nú enn breiðar og rétti Sus höndina. „Mark, gamall félagi mannsins þíns…“
„Bíddu… ég er ekki, Simon,“ segi ég og kannski er full mikil örvænting í röddinni svo bæði hótelkonan og þessi nýi vinur minn líta undrandi á mig.
„Varst það ekki þú sem baðst um nýtt lykilkort?“ segir konan og var allt í einu orðin ströng í málrómnum.
„Jú, jú…“ sagði ég
„Hvert er herbegisnúmerið þitt?“
„571.“
Mark þessi, með derhúfuna stóð hjá, og fylgdist með orðaskiftum mínum við hina ströngu hótelkonu og það var eins og allt í einu rynni upp fyrir honum ljós. Andlitið sem var ljómandi af ást og gleði breyttist á einu augnabliki. Úr augum hans lýsti algjör vandræðagangur, hann gerði sér grein fyrir að hann hafði farið mannavillt. Hann varð rauður af skömm svo byrjaði hann að hiksta upp úr sér.
„Ó, afsakið mig… ég hélt…. ó afsakið, fyrirgefið….“ og svo bakkaði hann út úr þypingunni og hraðaði sér burt.
Ég hef enn ekki fundið vindla í Múskat, en gönguferðin var stutt í dag. Ekki veit ég afhverju ég er kallaður Simon hér á hótelinu. En herra Arngrimsson er ekki alþjóðlegasta nafn sem hægt er að bera í útlöndum. Hér er hitinn kominn upp í 38 gráður.