Óman, Ad Dakhiliyah. Esell press piss

Nú þegar stjórnmálaskoðanir eru ekki lengur hugmyndir um samfélagsuppbyggingu heldur fyrirlitning á ólíkum manngerðum, sit ég í 2100 metra hæð mitt inni í Óman. Sem sagt hátt uppi í fjöllum þessa sendna lands. Við höfum keyrt mestan part dagsins út úr eyðimörkinni og upp í fjöllin. Hér er fallegt, enginn gróður og allt er skraufaþurrt. En fjöllin tignarleg og birtan sérstök. Í dag höfum við haft leiðsögumann með okkur, Nasser, og hann sá um að finna leiðina í gegnum eyðimörkina. Nasser er góður maður, hlýlegur og brosmildur en vandinn er sá að engin af okkur getur skilið hvað hann segir þegar hann talar ensku. Fyrst hélt ég í rauninni að hann talaði þýsku við mig fyrir einhvern misskilning, en tungumálið var hans útgáfa af ensku. Ég skil ekkert af því sem hann segir og ég held að hann skilji ekki orð af því sem ég segi. Samtal okkar er því frekar stirt.

„Hin hhtheeshe htown hhhtheey hora esell press piss.“ (e. in this town they sell fresh fish).
„Sorry,“ segi ég.
„Hin hjour hjome htown?“ (e. in your home town?) Hann hlær og ýtir við mér. Hann er eiginlega að springa úr hlátri.
„What do you mean?“ segi ég og skil ekkert.
„Hidi hjoureee hthi tha ja htal habut jour hjome htown?“ (e. Did you think I was talking about your home town?“ Nassar er að kafna úr hlátri, tárin renna úr augunum á honum. „hkorrly“ (e. I am sorry.) Segir hann og dregur upp servíettu til að þerra augun.

Nú gat ég ekki haldið samtalinu áfram. Ég skildi ekki orð. Svona gengu samræður okkar í upphafi ferðar. Ég sat við hliðina á honum, bílstjóranum, og Sus, Núm og Daf sátu aftur í og skyldu enn minna. Þau reyndu að fá mig til að útskýra hvað var svona fyndið. Eftir fjölmargar misheppnaðar tilraunir til að eiga samtal sáum við báðir, Nassar og ég,  að það var betra bara að þegja. Bílferðin sem tók um það bil sex klukkutíma fór því að mestu fram í þögn.

Ég fékk óvænt mail frá Valgerði réttindastjóra Forlagsins. Hún hafði verið í Óman og lét vel af dvöl sinni. Þegar mailið frá Völu barst mér mundi ég að hún hafði gefið út ljóðabók og var efnilegt ljóðskáld. En erindi hennar var fyrirspurn um gamla sölu á þýðingarrétti. Meira en tuttugu ára gömul réttindasala, ég gat, mér til undrunar, rifjað upp það mesta í kringum réttindasölu ákveðins gamals Bjartshöfundar. Það var kannski ekki svo erfitt, samningar okkar hjá Bjarti voru ekki sérlega flóknir. Við seldum þýðingarréttinn og svo fóru peningar óskiptir til höfundar. Við ætluðumst líka til að höfundra tækju að einhverju leiti yfir þegar samningar um sölu voru í höfn.

Höfundar, eins eins og annað fólk, eru misörlátir. Sumir höfundar sem ég hef kynnst reyna að hafa eins mikið og hægt er frá forlaginu sínu án þess að rétta litla fingur á móti til að gera samstarfið ánægjulegra. Aðrir eru ekkert nema örlætið svo manni finnst maður aldrei gera nóg til að svara gjafmildi þeirra. Mér datt þetta bara í hug. Yo.

dagbók

Skildu eftir svar