Óman, Múskat. Ekki fyrir grátgjarna

Að vera í 2400 metra hæð yfir sjávarmáli hefur merkileg áhrif á kroppinn á mér. Ég pissa látlaust. Fyrstu nóttina í fjöllunum pissaði ég 4 sinnum um nóttina og það var engar smábunur. Næsta dag ákvað ég að telja þau skipti sem ég pissaði og á einum sólarhring (frá klukkan 00:00 til 23:59) pissaði ég 12 sinnum. Yo. Einn og hálfan líter í hvert skiptið sem sagt 18 lítrar á einum sólarhring.

Í dag keyrðum við niður úr fjöllunum og það var útaf fyrir sig ævintýri því að hluta til eru vegirnir svakalegir. Grófir malarvegir í snarbröttum fjallshlíðum eru ekki fyrir grátgjarna. Við heyrðum í Þjóðverjum sem höfðu keyrt leiðina og þýska frúin í bílnum sagðist hafa grátið af hræðslu alla leiðina niður og það er meira en einn klukkutími. Við heyrðum líka að hollenskt par hefði farist tveimur dögum fyrr (eða tveimur árum það var óljóst vegna sá sem sagði frá var ekki besti enskumaður heims) á þessum sama vegi. Það voru því sumir sem keyrðu með þandar taugar niður þennan fáfarna fjallaveg.

IMG_9503
Fjöllin í Óman

En nú erum við komin á hótel í Múskat. Þetta er hálfgert plebbahótel miðað við fjallahótelið góða. Hér liggja vambmiklir bretar í sólstólunum með træbaltattú á upphandleggnum. Ég er hræddur um að Sölvi gæfi ekki mikið fyrir tattúin hér. Stemmningin við sundlaugarbakkann bera dálítinn keim af frönskum kartöflum sem fljóta í sundlauginni en að öðru leyti er hótelið fallegt.

Á morgun leggjum við af stað heim. Mér finnst ferðin hafa heppnast frábærlega vel. Sérstaklega uppi í fjöllunum og úti í eyðimörkinni. Það var ógleymanlegt.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.