Kastrup. Maður fyrir fríríki

Enn er ég í Kastrup, þessum heimsins flottasta flugvelli. Hér er allt á fullu við betrumbætur, bæði utandyra og innan. Það er metnaður hér í að gera flugvöllinn flottan, engin stöðnun, engin hnignun, allt stefnir framávið hér. Nú er ég á leiðinni til Íslands.

Á leiðinni frá Óman í gær hlustaði ég á þriggja þátta útvarpsröð eftir Jón Hall Stefánsson sem hann kallaði Fríríkið og fjallaði um Christianiu, Stínu. Hippasamfélagið í Kaupmannahöfn. Þetta voru skemmtilegir útvarpsþættir og efnið hæfði Jóni Halli vel. Þættirnir voru líka vel unnir, samtöl við marga Íslendinga sem höfðu búið í Fríríkinu. Annars fannst mér samtalið við Peter Øvig Knudsen um Christianiu og Thy-lajeren skemmtilegast.  Skarpur maður hann Peter Øvig, og það er Jón Hallur líka.

Þegar mér verður hugsað til Jóns Halls finnst mér hann gera líf mitt ríkara. Það eru mörg árin þar sem vegir okkar hafa legið saman. Ég held að hann sé sú sál sem hefði passað til Christianiu í sinni bestu útgáfu. Ef allir þeir sem hefðu flutt inn í Fríríkið hefðu verið eins og Jón Hallur hefði samfélagið verið andlega fullkomið, blóm, litir, dans og söngur. Ég er ekki viss um að hinar verklegu framkvæmdir hefður verið í topp en andinn hefði verið hinn rétti. Jón Hallur er hinn fullkomni sveimhugi, Og niðurstaða útvarpsþáttana var Jóns Hallsleg. Ég hló með sjálfum mér þegar ég hafði hlustað á lokaorð þáttarins. Hvað það er gott að svona menn eru til, hugsaði ég.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.