Reykjavík. Hitt fólk

Ég er nýlentur á Íslandi og gef hér með mínu fyrstu skýrslu um heimsóknina. Fjallar hún, skýrslan, um þá sem ég hef hitt á þeim fáu tímum sem ég hef verið á landinu. Listi yfir hitt fólk.

Í flugvélinni, flugvél wow-flugfélagsins, sem var sneisafull af fólki, voru nokkrir Íslendingar sem ég kannaðist við. Ég spjallaði þó bara við einn þeirra: Jón Geirsson, efnafræðing. Ég veit eiginlega ekki hvernig við þekkjumst, ég og Jón, en einhvernveginn þekkjumst við, og höfum þekkst lengi, þótt hann sé 10 árum eldri en ég. Það fer alltaf vel á með okkur Jóni. Mér finnst ég alltaf alveg óskaplega skemmtilegur maður í návist hans því hann hlær innilega að gamansemi minni, innilegar en allir aðrir og það er engin uppgerð í Jóni Geirssyni. Ég kemst í botnlaust stuð þegar ég tala við Jón. Við stóðum lengi á gangi flugvélarinnar og spjölluðum. Jón lýsti fyrir mér ástandinu í suðurhluta Lissabon og í þakkarskyni, eins og segir í ljóðinu,  lýsti ég fyrir honum starfsemi mafíunnar í úthéruðum Ítalíu, norð-austurhluta Puliu, og svæðinu í kringum Vico del Gargano.

Í kvöld fórum við Sandra og Agla á Kaffi Vest og fengum okkur hamborgara, Ingibjörg og Sölvi slóust í hópinn og svo kom Steinþór líka. Á meðan ég gæddi mér á borgaranum gekk Haukur Ingvarsson, bókmenntafræðingur, framhjá. Hann veifaði kampakátur. Mér fannst hann líkjast föður sínum, skattamanninum, enn meira en áður. Það er sagt honum til hróss.

Og út um gluggann sá ég Eirík Guðmundsson og Kolbein son hans koma gangandi frá Sundlaug Vesturbæjar. Ég lagði hamborgarann fallega á diskinn minn og gekk út til að heilsa mínum gamla vini og fyrrum sambýlismanni.
„Komdu sæll og blessaður, elskan mín,“ sagði ég.
„Nei, Snabbi, elsku kallinn minn.“
Ég hefði getað faðmað Eirík lengi. Eiríkur er vinur minn, hjarta mitt slær fyrir Eirík og það er greinilegt þegar maður hittir hann. Hann leit vel út, Giggs, ljómaði og það gerði Kolbeinn líka. Eiríkur var í stuði. Við stóðum fyrir framan Kaffi Vest og gerðum elskulegt grín að vinum okkar í fjarveru þeirra, sýndum kærleika okkar til þeirra með því að hlægja yfir vandræðum þeirra. En við hittumst aftur á morgun, við Eiríkur.
ps Ég mætti líka, á göngu minni um Reykjavík, Pétri Marteinssyni með brúnan hund í bandi og við hlið hans gekk sonur hans með hot dog í hendi. Við Pétur þekkjumst ekki. Við heilsumst þó alltaf kurteislega þegar við mætumst á götu eða veitingahúsi. En við þekkjumst ekki.

pps. Ég keypti mér bókina Spámennirnir í Botnleysufirði eftir Kim Leine í þýðingu Jóns Halls Stefánssonar. Eiginlega má segja að ég keypti þýðingu Jóns Halls, því bókina hef ég lesið á dönsku.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.