Er á leið til baka frá Íslandi og sit nú í enn einni flughöfn, í þetta skipti flughöfn Leifs Eiríkssonar, hins heppna manns. Það er eldsnemma morguns, klukkan er hálf sex og ég hef verið á fótum frá því klukkan þrjú í nótt. Brottfarartímar frá Íslandi eru ekki alltaf svo heppilegir ef maður vill ferðast úthvíldur. Eins og vanalega þegar ég hef verið í heimsókn á Íslandi sækir á mig einhver þungi. Eitthvað hvílir á mér sem ég get ekki losnað undan.
Eftirfarandi hitti ég á Íslandi:
Börnin mín Nóa, Söndru og Sölva og við töluðum um það sem börn tala um við pabba sinn og það sem pabbi þeirra talar um við börnin sín. Tendasynir og -dætur töluðu um það sem tengdadætur og synir tala um við tengdaföður sinn.
Sigurður Gíslason jarðfræðingur: Hamingjuóskir vegna dóttur minnar og fáein lofsorð um eitt og annað sem hefur orðið á vegi okkar beggja.
Guðbjörg Vilhjálmsdóttir: Samtöl um ljóðlist á finnsku, um stjórnunarstöður sem íslenskra konur gegna í opinberrum stofnunum og fegurð danskrar tungu.
Sigríður Tulinius (Sigga systir): Barátta Skota fyrir sjálfstæði sínu, að dvela í útlöndum og að koma til Íslands
Sigríður Ingadóttir: Samtöl um að vera munaðarlaus, merkingu þess að standa á krossgötum í lífinu og leitin að listamanninum innra með sér.
Steinunn ljósmóðir: Um tilviljanir og hvert þær leiða mann. Samverustundir óléttra kvenna. Að taka á móti börnum.
Guðrún Ósk Ólafsdóttir: Um brautir himintunglanna og andardrátt lítilla barna þegar þau sofa.
Hafliði Arngrímsson: Að ferðast með lest til og um Ítalíu, rannsóknarskýrsla Alþingis og aðferðir til að færa slíkan texta (þar sem er erfitt að skilja tengsl orðanna) á sviði Borgarleikhússins.
Margrét Pálmadóttir: La famiglia, söngur, bæði með og án hjálpartækja til að magna röddina, fegurð svissnesku borgarinnar Zürich. Fossinn í Húsavík.
Kristján Hafliðason: Hvort nota eigi spray-tan þegar barist á undirfötunum einum í viðurkenndum bardagaíþróttum. Gagnleysi félagsgreina í námslistum menntaskóla.
Hermann Stefánsson: Samtöl um þýska umboðsmanninn Gudrun Habel.
Jón Kaldal: Samtal um borgina Napoli, að taka nýja stefnu í lífinu miðju og um hjartalag gamalla félaga.
Eiríkur Guðmundsson: Skáldskapur og hvernig þýðing á erlend tungumál geta gert lyft hinum upprunalega texta. Upprifjun á gömlu sumri.
Einar Falur: Um starfsþrek, vinnuafköst og samstarf listamanna og útgefenda. Hinar óþekktari götur New York borgar.
Andri Snær Magnason: Líf eftir forsetaframboð.
Eiríkur Örn Norðdahl: „Til hamingju með nýju bókina þína.“ Veit ekki hvort hann heyrði en hann brást ekki sérstaklega við kveðjunni.
Elísabet Indra Ragnarsdóttir: Að reka menningarrými.
Valur Antonsson: Greining á persónum. „Þú vilt dýrka það fagra, ýta undir það fagra en þú ert líka nógu ósvífinn að leyfa þínum innri púka að ná sínu fram.“ Og um ójafnvægi á íslenskum bókamarkaði og þau tækifæri sem slíkt ójafnvægi býður.
Haukur Ingvarsson: Um ný geðlyf og verkun þeirra.
P.s. nú er ég lentur og á leið til Espergærde með lestinni. Í flugvélinni las ég bókina Mannsævi eftir Robert Seethaler. Þetta er ágæt bók, hálfdapurleg og ekki beint til að lyfta hinum tregablandna huga upp í bjartari huglendur. Nú finn ég eitthvað fallegt til að gleðjast yfir, í lestarferðinni upp Sjáland.