Espergærde. Hinir óskeikulu

Enn er kominn morgunn og ég er kominn á fætur. Ég horfi út í garðinn minn eftir að hafa lesið dagblöðin, hann er baðaður sól, garðurinn. Ég læt hinn franska harmonikkuleikara Richard Galliano bera mig inn í daginn. Það er kyrrt yfir, fólk virðist ekki vaknað. Sunnudagsmorgunn. Kaffibollinn minn stendur tómur fyrir framan mig og ég nenni ekki að standa upp til að hella upp á meira kaffi. Kíkti á netið og las nokkur blogg. Það er gaman að lesa hvað sumir geta glaðst yfir yfirsjónum annarra. Hinir óskeikulu er glaðir í dag.

Í fluginu frá Óman hafði ég setið lengi og lesið í bókinni minni og ég tók eftir að sessunautar mínir horfðu á kvikmyndir á skjánum í sætisbakinu fyrir framan sig. Maðurinn horfði á kvikmynd þar sem var mikið sprengt og miklir eldar geysuðu á skjánum. Konan horfði aftur á móti á kvikmynd með einum leikara úr Friends. Hún flissaði af og til yfir einhverju sem var fyndið. Flugið frá Óman tekur marga klukkutíma svo ég ákvað líka að sjá kvikmynd og Manchester by the Sea varð fyrir valinu. Ég vissi ekkert um þessa kvikmynd. En ég horfði og ég fann fljótt myndin hafði borið mig inn í tilfinningalendur sem ekki er auðvelt að dvelja í þegar maður situr í flugi við hliðina á ókunnugum. Ég barðist við tárin, þetta er sorgleg mynd um að hrasa, um yfirsjónir, og ég varð að laumast til að þerra augun og vonaði að sessunautar mínir uppgötvuðu ekki þennan hálfsnöktandi mann sér við hlið. Ég verð auðveldlega borinn tilfinningalegu ofurliði.

Pabbi minn sagði alltaf við mig þegar ég var lítill og hann sá að ég barðist við tárin yfir einhverju sorglegu að ég skyldi ekki skammast mín fyrir að gráta. „Það sýnir bara að þú hefur gott hjarta, Snæi minn.“ Ég vona að ég hafi gott hjarta. Ég get að minnsta kosti enn grátið yfir yfirsjónum annarra.  Kannski afþví að ég er sjálfur svo skeikull.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.