Espergærde. Athugasemdir

Í gærkvöldi fékk ég ágætt bréf frá konu sem ég þekki lauslega. Hún segist lesa Kaktusinn reglulega en hafði athugasemdir við skrif mín: „Í dag er það svo að all you need er alls ekki love. Nú til dags er það bara status, viðurkenning og like á Facebook sem þú sækist eftir. Reynslan hefur kennt mér að flestir karlmenn hafa fengið nóg af love og við-tvö.“ Hmmm, hugsaði ég. Hvað sagði ég sem fór svona öfugt ofan í þessa ágætu konu? Ég fékk fleiri athugasemdir í gær við skrif mín sem varð til þess að ég hugsaði með mér: Það er aldeilis sem orð mín í þessari litlu dagbók eru túlkuð. Menn sjá miklu dýpra og lengra inn í skrifin en ég sjálfur. Nú verð ég að vanda mig svo ég valdi ekki misskilningi.

Annars las ég viðtal við hljómsveitarstjórann, píanistann, gyðinginn og palestínumanninn Daniel Barenboim í JyllandsPosten í gærkvöldi. Hann virðist vera svartsýnn á stöðu evrópskrar menningar: „Fólk er ekki lengur klassískt menntað, það er ekki lengur skilningur fyrir að menntun og menning er grundvallarnauðsyn fyrir manneskjuna. Í Sovétríkjunum gömlu og í gamla Austur-Þýskalandi voru stórkostlegir tónlistarskólar og þar las fólk Dostojevskij, Gogol og Lermontov í neðanjarðarlestinni. Nú les fólk Facebook. Menningarveldið Evrópa er liðið undir lok og það sem eftir stendur er Evrópusamband um fjármálahagsmuni.“

Þetta minnti mig á það sem skáldið Sigurður Pálsson sagði alltaf: „Ég gekk í MR. Ég er klassískt menntaður.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.