Espergærde. Dropi í hafi og hafið sjálft

Ég á von á gestum til mín hingað á lestarstöðina í Espergærde. Virðulegir gestir frá höfuðstaðnum, Kaupmannahöfn, ætla að koma hingað til að halda fund með mér. Efni fundarins kemur í ljós. Ég hef því  15 mín. til að skrifa dagbók dagsins.

Í gærkvöldi keppti ég með fótboltaliðinu mínu eftir nokkurt hlé og nú er ég aldeilis aumur í kroppnum. Í morgun mætti ég svo til jóga ásamt vinum mínum tveimur, stirðbusunum. Við sitjum þrír stirðbusar í öftustu röð. Lars, sem er við hliðina á mér, stynur og andvarpar eins og hvalur. Ég er hljóðlaus eins og fiskur. Hinn lágmælti. En það var erfitt að gera jógaæfingar eftir fótboltaleik. Ég fékk svo mikla krampa í lærin þegar ég reyndi að gera æfingarnar. Já.

Í gær benti Hermann Stefánsson, rithöfundur, mér á að ég skyldi lesa bók Halldóru Thoroddsen, bókina sem hún fékk Evrópuverðlaun fyrir. Ég hélt að ég ætti hana en fann hana ekki heima í gær í öllu bókaflóðinu í hillunum. Því fór ég að leita að henni, bókinni, í rafútgáfu í netbókabúðum á Íslandi. Eftir stutta leit á Eymundsson-vefnum lenti ég af einhverjum orsökum á bók sem heitir Örvænting eftir B.A. Paris. Ég las kynningartextann og ég verð að segja að kynningartexti bókarinnar er nánast óskiljanlegur. Meira hvað forlagið bak við þessa bók hefur lélegan baksíðutextahöfund. Þarna er Kristján B. Jónasson augljóslega ekki að verki, besti baksíðutextahöfundur þjóðarinnar. Fólkið bakvið Örvæntingu ætti að leita ráða hjá Kristjáni. Hann ætti að geta hjálpað. En svona er textinn sem á að selja Örvæntingu eftir B.A. Paris til bókelskra Íslendinga. Ég tek það fram að ég breyti engu í textanum, textinn byrjar svona, ég lofa því:

„METSÖLUBÓKARINNAR „BAK VIÐ LUKTAR DYR“, METSÖLUBÓK SÍÐASTA ÁRS. Cass Anderson nam ekki staðar til að hjálpa konunni í hinum bílnum – og nú er hún dáin. Síðan þá fær Cass síendurtekin þögul símtöl og er viss um að einhver sé að fylgjast með sér.”

Er þetta ekki stórkostlegt?

Í jóga var mér sagt að ég ætti ekki að hugsa um sjálfan mig sem dropa í hafinu, heldur sem sjálft hafið, með öllum þess blæbrigðum og sveiflum í geði; frá ofsa til hinnar mestu blíðu. Ég reyni það. Yo.

ps. Myndin fyrir ofan færslu dagins er frá fjöllunum í Óman. Langt inni í auðninni birtist skyndilega, langt frá öllum mannabyggðum, þessi teppalagði fótboltavöllur. Aldeilis furðuleg sýn.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.