Espergærde. Hvers vegna að gefa út bók?

Ég hafði varla ýtt á hnappinn, birta á vef, þegar ég fékk viðbrögð við færslu gærdagsins. Menn voru óðir og uppvægir út af því að ég gat ekki lesið bók Halldóru Thoroddsen, Tvöfalt gler. Menn buðust til að senda mér bókina, sem var fallega gert. En ég fann hana loks í bókahillunni heima hjá mér og las hana í gær. Eftir lesturinn hugsaði ég með mér. Fín lítil bók. Heint ágætlega skrifuð. Ekki ógleymanleg og sætir heldur ekki stórtíðindum í mínum heimi.

Hermann Stefánsson, rithöfundurinn sem benti mér á að lesa bókina hennar Halldóru, furðaði sig á að FORLAGIÐ hefði hafnað bókinni á sínum tíma. Nú væri eiginlega sannað að bókin væri góð og ætti erindi út í heiminn því bókin hefði fengið einhver Evrópuverðlaun.

Eftir að hafa lesið bók Halldóru get ég á minn hátt vel skilið að FORLAGIРhafi ákveðið að hafna bókinni. Það eru svo margar ástæður fyrir forlag að hafna bók. Það þarf ekki að vera vegna þess að bókin er léleg. Bókin getur verið góð en útgáfufyrirtækið ákveður samt að hafna henni.

Forlag er ekki bara bókmenntastofnun, (sum forlög eru heldur alls ekki hugsuð sem bókmenntastofnanir), forlag er líka fyrirtæki í afþreyingariðnaði og forlag er líka efnahagsleg eining sem þarf að hafa árstekjur sem eru hærri en ársútgjöld. Yfir þessu fussa sjálfsagt sumir fínni höfundar sem sjá heiminn í gegnum sín höfundaraugu.

FORLAGIРer forlag sem bæði hefur bókmenntametnað og metnað til að sinna þeim lesendum sem leita eftir góðri afþreyingu í bókarformi (afþreying er svakalega ljótt orð). Forlagið hefur fjölda góðra höfunda á sínum snærum sem hafa listrænan metnað. Sumir þeirra selja margar bækur aðrir mun færri. Hið efnahagslega er ekki afgerandi þáttur í útgáfu á bókum þessara höfunda.

Svo kemur handrit inn á borð FORLAGSINS að aldeilis fínni bók, eins og bók Halldóru er, þá hlýtur forlagið að hugsa: Fín bók. Þetta er bók sem höfðar til bókmenntaáhugamanna, sem sagt fólks sem er vant að lesa hálfflókna texta. Sá hópur er um það bil 5000 manns á Íslandi. Eigum við að bæta fleiri höfundum í okkar hús sem höfðar til þessa hóps? Við höfum marga. Er þetta bók sem við getum ekki annað en gefið út af því að hún er svo góð, falleg og ógleymanleg? Viljum veðja á að þessi höfundur eigi eftir að skrifa stórkostleg verk? Er þetta góð bók sem gæti líka hjálpað forlaginu að vera réttum megin við efnahagsstrikið? Ef ég væri í þeim sporum að þurfa að svara gæti ég vel valið að segja nei við öllum liðum spurninganna. Ég get ekki með fullri sannfæringu svarað já.

Ég gæti auðvitað líka valið að segja hikandi já; þessi bók er fín, hún gerir íslenska bókmenntflóru ríkari (og það gerir bókin). Ég vil sjá þetta blóm og ég vil að margir geti notið fegurð þess. En innra með mér mundi lifa spurningin: En er þetta nýja blóm svo fallegt að ég vilji leggja fram vinnu og peninga til að þetta ákveðna blóm fái að blómstra á bókmenntaakrinum innan um öll hin fínu blómin?

Ég verð að bæta við: Bókmenntaverðlaun tek ég ekki sérlega alvarlega og þau eru ekki í mínum huga nein sönnun þess að bók sé stórfín. Ég hef setið í of mörgum nefndum um bókmenntaverðlaun og heyrt of margar sögur um útnefningar til bókmenntaverðlauna til að ég taki þau mjög hátíðlega. Bókmenntaverðlaun eru fyrirtak til að vekja athygli á bókum. Bókmenntaverðlaun eru góð til að gleðja þá höfunda sem eru tilnefndir. Það er notalegt að fá það klapp á bakið sem slík verðlaun veita.  Yo.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.