Espergærde. Að skapa pláss

Ég fékk bæði skemmtileg og leiðinleg viðbrögð úr hinum óvæntustu áttum við færslu minni frá í gær um að gefa út bækur. Það voru ekki liðnar margar mínútur frá því ég hafði sett dagbók gærdagsins á netið þegar fyrsta mail barst sem hljóðaði svo:

„Úff! Hugsaði ég þegar ég hafði lesið Kaktusinn, nú á Snæi eftir að fá marga pósta frá Íslandi … En gott hjá þér, ungi maður. Og get skrifað undir allt sem þú segir.“

Næsta mail: „Helvítis læti eru þetta í þér!“

Næsta mail: „Ég get svo sem tekið undir flest sem þú segir. En ertu ekki að deila á ákveðinn mann?“

Og svona komu þau inn mailinn, eitt á eftir öðru. Ég veit svo sem ekki á hvaða æð ég hef hitt en viðbrögðin voru sterkari en efni dagbókarinnar gaf tilefni til. Ég er ekki að deila á neinn eða neitt. Mér datt þetta bara í hug þegar ég hafði lesið hina mjög svo ágætu bók Halldóru Thoroddsen, Tvöfalt gler. Og ég ítreka að mér þótti bókin fín og ég er glaður að hafa lesið hana.

En að allt öðru. Ég var í jóga í morgun. Kennarinn minn er ung kona af tyrkneskum uppruna og talar fullkomna dönsku. Hún er góður kennari og þegar hún brosir lýsir hún upp jógastúdíóið svo það er eins og sjálf sólin hafi brotist fram úr skýjunum. Ég hef tekið eftir því að þegar við teygjum og strekkjum og reynum að útvíkka okkur í allar áttir notar hún oft eitt orð: „Rumlighed“

Mér finnst þetta svo gott orð, eins og hún notar það, því það vísar bæði til þess að maður á að opna líkama sinn, víkka brjóstkassann og opna upp í mjöðmum til að skapa rými í líkamanum en líka að maður eigi að skapa rými í huglægri merkinu, breiða út faðm sinn, auka víðsýni og umburðarlindi. Það finnst mér svo mikilvægt að hafa í huga án þess að maður taki allri vitleysu sem góðri og gildri af því að maður er svo umburðarlindur. Já, svona er nú það. Flott orð „rumlighed“.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.