Espergærde. Öskubíllinn David Sedaris

Vaknaður eftir nærri tíu tíma svefn! Ég var líka algerlega búinn á því eftir svefnlitla viku og laugardag, svo þéttpakkaðan af óleystum verkefnum, að ég gat fyrst sest niður klukkan 20:15. Og eftir það var ég ekki til mikils gagns. En ég vaknaði við fuglasöng glaðra fugla í morgun, ég dró gardínurnar frá og viti menn, búmm, búmm. Heiður himinn og logn. Sus hafði læðst á fætur klukkan sjö á meðan ég svaf eins og grautur og fengið sér göngutúr niður að sjó og út í Louisiana safnið.

Ekki verður mikið um framkvæmdir í dag. Við erum boðin til fermingarveislu og þessi fallegi dagur verður helgaður fermingarbarninu Ameliu dóttur nágranna okkar Lars og Piu.

Við framkvæmdirnar í gær hlustaði ég á nokkra þætti af Lestinni, þáttum Eiríks Guðmundssonar og Önnu Gyðu. Þessi frábæra uppfinning Podcast, hjálpar mér við að fylgjast með hvað fram fer í íslensku menningarlífi með því að hlusta á Lestina. Ég hef gaman að flestu í þáttum þeirra Eiríks og Önnu Gyðu, sumir pistlar eru betri en aðrir, en mér finnst það samt alltaf jafn fyndið þegar ég les kynninguna á þættinum á Podcastinu: „Fjallað er fordómalaust um menningu samtímans…“ Hehe. Fordómalaust, my ass. Hvað skyldi nú felast í því orði. Þátturinn er fullur af fordómum. Eins og ég sjálfur, þótt ég berjist við að losna undan þeim, fordómunum. Stundum finnst mér skilgreiningin á að vera „laus við fordóma“ felast í að setja ekki fram pólitískt og menningarlega óviðeigandi skoðanir. Það á kannski við Lestina.

Mér finnst ég alls staðar sjá fjúkandi plast og plast sem vefur sig utan um trjágreinar. Í morgun las ég að árið 2050 verið þyngd plasts í sjónum meiri en þyngd allra samanlagðra fiska sem lifa í hafinu. Ég ætti kannski að fara að gera eins og rithöfundurinn David Sedaris. (Aukasetning: Við gefum út Sedaris og höfum hitt hann nokkrum sinnum og hann er bráðskemmtilegur maður.) Tómstundagaman hans, og hann tekur það mjög alvarlega, er að safna rusli úti í náttúrunni. Hann býr nú í suðurhluta Englands (aukasetning: hann er ameríkumaður) og á hverjum degi gengur hann um það bil 20 km með svartan poka og safnar í hann því rusli sem er á gönguleið hans. Athæfið hefur vakið athygli, svo mikla að Bretlandsdrottnig ákvað að hengja á hann orðu fyrir náttúruvernd og sorhirðufyrirtækið í skírinu þar sem Sedaris býr hefur nefnt öskubíl í höfuðið á skáldmanninum. Öskubílinn David Sedaris.

P.s málfræðihornið: Tók eftir því að bæði Eiríkur og einn af pilstahöfundum Lestarinnar töluðu ítrekað um að „fara erlendis.“ Þegar ég bjó á Íslandi þótti það ekki fagurt mál og jafnvel kolrangt að tala um að fara erlendis. Maður fór til útlanda og dvaldi erlendis. Kannski hefur þetta breyst, tungumálið þróast. Hvað veit ég.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.