Espergærde. Fordómar og aumar tær.

Nú, nú. Hef ég enn og aftur stigið á tærnar á einhverjum? Ég biðst afsökunar. Ekki er meiningin að meiða neinn eða særa með þessum dagbókarpistlum, þvert á móti. En ég skrifa það sem kemur í hugann og segi bara það sem mér finnst akkúrat á því augnabliki sem ég skrifa. Ég skrifa í takt við hjartað í mér, tjái það sem mér býr í brjósti, frjáls maður. Ég geng einn, ég fylgi konunni með ljósið. Yo.

„Hvað er þú að rífa kjaft út í Kaupmannahöfn?“ var ég spurður. Ég vissi ekki einu sinni að ég hefði verið að rífa kjaft. En það fór fyrir brjóstið á nokkrum lesendum Kaktusins að ég pikkaði aðeins í Eirík Guðmundsson og Önnu Gyðu umsjónarmenn Lestarinnar. Hingað komu ábendingar. Takk.

Ég er sólginn í menningarumfjöllun Lestarinnar. Eiríkur er minn maður. En manifesto þáttarins, sem kemur alltaf á skjáinn hjá mér þegar ég opna Lestina í podcastinu, hefur í margar vikur stungið mig í augun. Þátturinn er fordómalaus, segir meðal annars í manifestoinu. Því verður maður sérstaklega vakandi fyrir fordómum (það er fyrirfram gefnum skoðunum, sem hafa enga raunverulega rannsókn á bak við sig).

Þegar maður leggur við hlustir, með þetta manifesto í huga, nemur fordómaskynjaraloftnet mitt merki þrátt fyrir góðan vilja umsjónarmanna Lestarinnar. Umburðarlindi nær betur því sem þau hugsa, að þau vilja að ólíkar tegundir menningar fái notið sín innan ramma Lestarinnar. Bæði Danielle Steel og Shakespeare geta verið umfjöllunarefni útvarpsþáttarins. En það hefur ekkert með fordómaleysi að gera. Finnst mér.

Hin inngróna hugsun íslenskrar menningarelítu fær rödd í Lestinni. Og þar koma fordómarnir í gegn. 

Það má taka mig í bakaríið fyrir það sem ég fjasa hér á Kaktusnum. Það hreyfir ekki við mér. Ég er ískaldur og þótt gjörvallir lesendur Kaktusins tækju sig saman um að pönkast í mér þar til ég legðist í gröfina mundi það ekki snerta mig. Ég sest bara út á garðbekkinn minn í myrkrinu og fæ mér vindil.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.