Þegar ég vaknaði í bjartviðrinu í morgun hugsaði ég með mér: nú ætti ég að reima á mig hlaupaskóna og skokka nokkra kílómetra. En þegar ég steig fram úr mínu góða rúmi nennti ég ekki af stað. Ég hleyp um helgina, ákvað ég með sjálfum mér, ég verð að drífa mig í vinnuna.
Mér varð hugsað til þess hvað fólk á að gera við tíma sinn í framtíðinni, þegar ég las í JyllandsPosten um komandi róbotavæðingu þar sem fram kom að 70% af öllum störfum í Kína verða óþörf eftir 30 ár. Hvað á fólk að finna sér til dundurs þegar það þarf ekki að vinna? Verður fólk glaðara að þurfa ekki að mæta á vinnustaðinn sinn eða bíður okkar tóm vesöld með öll þessa gervigreindu vélmenni framtíðarinnar? (Ætli þetta sé gott fyrir bókabransann, hehe.) Eftir 30 ár verð ég örugglega bara að rækta mínar ólífur, það getur ekkert vélmenni séð um.
Í gær hitti ég mann, örugglega um það bil 70 ára gamlan, sem var nýbúinn að stofna fyrirtæki niður á Kúbu. Fyrirtæki sem framleiðir matvöru (ég held að hann hafi meint eins konar landbúnað), eða hann kallaði fyrirtækið “marvælaframleiðslufyrirtæki”. Ég horfði hissa á hann. „Ertu búinn að stofna fyrirtæki niður á Kúbu? Hvernig gekk það?“
„Það gekk ekkert sérstaklega vel, hefur tekið langan tíma, en mér liggur ekkert á þetta er verkefni sem á fyrst að skila einhverju til baka eftir 20 ár.“
„En afhverju velurðu Kúbu?“
„Kúba hefur allt sem svona fyrirtæki þarf: vinnuafl, jörð, sól og regn. 80% af öllu ræktanlegu landi á Kúbu er óræktað. Ég ætla að rækta land á Kúbu.“
Ég dáist alltaf svo af svona óhræddum framkvæmdamönnum. Það eru ótal uppbyggingarmöguleikar á Kúbu. Sjá til dæmis þetta fallega hús (sjá mynd) í algerri niðurníðslu. Svona eru húsin í Havana. Hér væri hægt að byggja upp.