Espergærde. Loftbelgstúrinn

Í nótt var partý hjá einhverjum nágranna mínum. Hávaðinn var svo mikill að ég vaknaði um klukkan eitt og gat svo ekki sofið. Daf lá við hliðina á mér þar sem Sus er enn í Malmö. Hann svaf eins og engill með aðra höndina á öxlinni á mér. Hann vill alltaf hafa snertingu, Andvaka í nóttinni fór ég allt í einu að hugsa um bók sem ég gaf út fyrir mörgum árum; Eilíf ást eftir Ian McEwan. Að vísu var útgáfan á þessari bók í íslenskri þýðingu  algerlega misheppnuð og ég svitna enn þegar mér verður hugsað til þess þegar ég opnaði bókina glóðvolga úr prentmiðjunni. Og það fyrsta sem ég sá var prentvilla, gróf prentvilla. Mér dauðbrá. Og svo sá ég aðra prentvillu á sömu síðu og aðra! Þrjár prentvillur á fyrstu síðu bókarinnar. Ég hélt að það mundi líða yfir mig. Hvað hafði eiginlega gerst? Ég var fljótur að sjá að ég hafði sent rangt skjal upp í prentsmiðju svo prentararnir prentuðu óleiðrétt skjal og bjuggu til bók fyrir mig. Ég lét bókina nánast hverfa. Skömm mín var svo mikil.

En það var ekki þessi óheppilega röð atburða sem ég hugsaði um í nótt, heldur var það  upphafssena bókarinnar sem leitaði svo á huga minn? Og hvernig endaði bókin. Ég braut heilann því ég mundi að upphafssena þessarar bókar er sú besta sem ég hef lesið.

Loftbelgur lendir í almenningsgarði í Englandi á sumarbjörtum degi. Í garðinum er margt um manninn, margir liggja á teppum sínum og njóta sólarinnar. Í körfu loftbelgsins er faðir og sonur. Þegar þeir lenda stígur faðirinn frá borði og reynir að hemja loftbelginn, og festa við jörðina, en loftbelgurinn vill aftur upp. Barnið er enn í körfunni og kemst ekki út. Höfuðpersóna bókarinnar, sér þessi vandræði og hleypur, ásamt öðrum, til að hjálpa til við að festa loftbelginn við jörðina. Þeir eru tveir mennirnir sem ásamt föðurnum  sem halda í langt reipi, fest í loftbelgskörfuna.

Skyndilega lyftist loftbelgurinn og svífur upp. Mennirnir þrír hanga í reipinu til að reyna að hefta för loftbelgsins, en loftbelgurinn svífur hærra og hærra. Eiga þeir að sleppa nú áður en það er of seint eða freista þess að hanga og fá loftbelginn niður? Annar mannanna sleppir takinu og fellur til jarðar og þá eru þeir tveir eftir hangandi í reipinu, faðirinn og höfuðpersóna bókarinnar. Í körfunni grætur sonurinn viti sínu fjær af hræðslu. Loftbelgurinn lyftist nú hratt upp á við þar sem þeir eru nú bara tveir sem hanga í reipinu. Loftbelgurinn er kominn svo hátt á loft að annað hvort verða þeir að sleppa nú til að lifa fallið af eða svífa í reipinu með drengnum í körfunni. Höfuðpersónan sleppir takinu og faðirinn og sonurinn svífa upp í himininn.

Hvernig endaði bókin? Ég man það ekki. Hvað varð um feðgana? Ég man það ekki.

Um þetta braut ég heilann í nótt meðan danstónlistin dunaði hjá nágrönnum mínum og hin ölvuðu ungmenni börðust við að yfirgnæfa tónlistina í samtölum sínum. Stundum var eina ráðið til að yfirgnæfa músikina að góla hátt.

Mér var bent á mikla varnarræðu Gunnars Smára á einhverjum netmiðli. Gunnar Smári vill stofna sósíalístískan flokk og vill sverja af sér þátttöku í atburðum sem leiddu til hins mikla efnahgslega falls og alla ábyrgð á hinni íslensku efnahgaskreppu sem hófst árið 2007. Mér fannst eiginlega athyglisverðasti punktur Gunars Smára í hinni miklu ræðu þar sem hann segir: „eyðileggingarafl kapítalismans hefur rústað hefðunum, misþyrmt náttúrunni, gelt framleiðslustörfin, eyðilagt matinn og er á góðri leið með að ganga frá heilsu neytenda.“ Þetta er kröftuglega mælt og það verður gaman að sjá hvernig Gunnari Smára tekst til að vernda hefðir, hlífa náttúrunni, skapa gefandi framleiðslustörf og ekki síst bæta gæði matar og skapa heilsusamlegra líf neytenda með sínum nýja flokki.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.